148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Til að vinna gegn ójöfnuði í samfélaginu þarf öflugt barnabótakerfi og það þarf öflugt húsnæðisbótakerfi. Þessi ríkisstjórn býður upp á hvorugt. Það sem þarf að gera, eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sagði áðan, er að hækka eignamörkin í vaxtabótakerfinu ef við eigum ekki að láta það hverfa smátt og smátt, eins og mér sýnist reyndar ríkisstjórnin hæstv. ætla að gera. Fasteignaverð hefur hækkað mjög mikið og líka fasteignamat sem miðað er við við úthlutun vaxtabóta. Þessi breyting er lítið skref. Ég hefði kosið stærra skref, en þessi breyting er gott skref í rétta átt og hún mun nýtast þeim sem eru með lágar tekjur og meðaltekjur. Það er rangt mat sem hér hefur komið frá stjórnarþingmönnum, (Forseti hringir.) að þetta sé fyrir þá tekjuhæstu. Fasteignamat á húsnæði þeirra sem hafa lágar tekjur og meðaltekjur hefur nefnilega líka hækkað.