148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að sjá svona marga í atkvæðaskýringu. Þetta snýst um afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna. Það er í raun efnislega það sama og ágætt frumvarp Flokks fólksins, sem við munum ræða jafnvel meira ef þetta mál verður fellt. Umræðan var hér um málið sjálft, alla vega af minni hálfu, og ég held ekki að mér takist að færa fram öll rök sem eru fyrir þessu ágæta máli á þeim 30 sekúndunum sem eftir eru. En ég fagna því alla vega að Flokkur fólksins hafi lagt fram frumvarp sem er um sömu breytingu þannig að við getum haldið áfram að ræða það mál. Ég er sannfærður um að fái sú tillaga næga umræðu muni hún ná í gegn fyrr eða síðar.