148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta vera jákvæða tillögu, að frítekjumark sé hækkað upp í 100 þús. kr. varðandi atvinnutekjur. Ég tel þó að ganga mætti lengra og að horfa þurfi á þetta allt í samhengi, þær tekjur sem ellilífeyrisþegar og öryrkjar hafa möguleika á að fá, hvort sem er úr lífeyrissjóðum sínum, fjármagnstekjur eða atvinnutekjur. Þarna þarf að gæta jafnræðis og horfa á samspil þessara tekna. Ekki geta allir farið út á vinnumarkaðinn, sérstaklega ekki láglaunafólk sem er búið að vinna erfiðisvinnu alla sína tíð. Þess vegna þarf að gæta jafnræðis og nýta stuðning ríkisins þannig að hann komi þeim tekjulægstu best og forgangsraða í þágu þeirra tekjulágu. Þess vegna styð ég þessa tillögu en tel að þakið mætti vera ofar og að það eigi að skoða en í því samhengi sem ég hef talað um.