148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við erum að hefja 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018 og ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar.

Aðdragandann þekkjum við. Segja má að annað árið í röð fari þessi umræða fram við sérstakar aðstæður og á naumum tíma sem er auðvitað bagalegt. Það er eilítið mótsagnakennt að segja á sama tíma og það sé ekki í anda þess lagaumbúnaðar opinberra fjármála sem tók gildi 1. janúar 2016 sanni þau lög gildi sitt því að nokkur stoð er í þeim umræðum sem fram fóru um fjármálaáætlun vorið 2017. Enda þótt stuðningslið hæstv. ríkisstjórnar sé skipað á annan veg nú en þegar sú fjármálaáætlun var rædd nýtur umfjöllunin nú um fjárlögin góðs af þeirri ítarlegu umræðu sem þá fór fram um opinber fjármál.

Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er einkum áhersla á heilbrigðismál, menntamál og samgöngur. Því fer auðvitað fjarri að á þeim skamma tíma sem liðinn er frá stjórnarskiptum hafi verið unnt að móta fjárlagafrumvarp sem rammar inn á eitt ár þær framkvæmdir sem boðaðar eru í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Væntingar til úrbóta á ýmsum sviðum samfélagsins og fjármögnunar á brýnum verkefnum eru eðlilega talsverðar enda má segja að næstum áratugur í endurnýjun og endurbótum á innviðum og mikilvægri þjónustu við landsmenn hafi horfið. Á sama tíma er ekki síður mikilvægt að verja þann efnahagslega árangur sem náðst hefur á undanförnum misserum. Þrátt fyrir forgangsröðun aukinna útgjalda til þessara málaflokka er gætt að því hér að skila jákvæðri afkomu með áherslu á aðhald, að verja efnahagslegan stöðugleika, greiða niður skuldir og lækka vaxtabyrði ríkissjóðs.

Nú er ekki nema slétt vika liðin frá 1. umr. frumvarpsins. Á þeim tíma hefur nefndin fjallað um frumvarpið og átt fundi með fjölda gesta og vill meiri hlutinn sérstaklega þakka gestum fyrir að bregðast við fundarboðum með mjög skömmum fyrirvara til að fylgja eftir umsögnum sínum um frumvarpið. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa allra ráðuneyta sem bera ábyrgð á einstökum málefnasviðum og málaflokkum ríkisins og fjölda fulltrúa, þ.e. frá 26 hagaðilum. Þegar ég segi þetta, virðulegi forseti, finnst mér full ástæða til að hrósa allri hv. fjárlaganefnd fyrir sérstaklega góðan vinnuanda og samstarfsvilja til að láta þétta dagskrá ganga upp.

Heildaráhrif breytingartillagna meiri hlutans sem lagðar eru til hér eru listaðar í fyrstu töflu nefndarálitsins, á bls. 2, þar sem fram koma breytingar á frumjöfnuði og vaxtajöfnuði og áhrif breytinga á heildarjöfnuð. Þar kemur fram að afgangur heildarjöfnuðar lækkar um 2.008,6 millj. kr. sem er heldur minni afgangur en lagt var upp með í frumvarpinu.

Í efnahagsforsendum frumvarpsins er tekið tillit til nýjustu þjóðhagsspár Hagstofu Íslands frá því í nóvember sem hefur veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs til hækkunar frá því sem áður var áætlað. Í heildina eru efnahagshorfur mjög hagfelldar. Hagvöxtur ársins 2016 nam 7,4% en endurskoðuð áætlun fyrir árið í ár nemur 4,9% sem er 0,6 prósentustigi meiri vöxtur en gert var ráð fyrir í febrúarspánni.

Hagvaxtarspár gefa hins vegar til kynna minnkandi hagvöxt á komandi misserum og það ber að hafa í huga. Við höfum nú blessunarlega búið við verðstöðugleika og mæld verðbólga hefur verið undir markmiðum Seðlabankans í fjögur ár.

Í samhengi verðstöðugleika er aðhald í ríkisfjármálum ekki síst mikilvægt. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2017 voru gjöldin aukin umtalsvert frá fyrra ári og í frumvarpinu nú er enn bætt í að raungildi. Áætluð frumútgjöld frá fjárlögum 2017 til frumvarps 2018 aukast um 66 milljarða sem er svipuð fjárhæð og árið þar á undan.

Í töflu á bls. 141 í frumvarpinu koma fram útgjaldabreytingar milli ára, sem gagnlegt er fyrir hv. þingmenn að skoða, sundurliðaðar á 34 málefnasvið og sýnd breyting frá fjárlögum 2017 að raungildi. Þar kemur m.a. fram að fjárfrekasta málefnasviðið hefur undanfarin ár verið vextir og lífeyrisskuldbindingar og endurspeglar það sem við höfum verið að kljást við í ríkisfjármálum, þunga vaxtabyrði sem er auðvitað bagalegt, en nú verður breyting þar á. Það sem hægt er að sjá er að við erum að ná árangri í að ná niður vaxtabyrði en um leið eru útgjöld, sem er jákvætt að vissu leyti, að aukast til sjúkrahúsþjónustu. Þau aukast um meira en 7,2% að raungildi.

Þar ber þó að nefna að langmesta aukningin er í lyfjum og lækningavörum, 35%, og skýrist það af því að bæði verð- og magnaukning í lyfjum og hjálpartækjum er langt umfram forsendur fjárlaga ársins 2017 og er brugðist við því með þessum hætti.

Í yfirferð sinni um frumvarpið fékk nefndin innsýn í átak fjármála- og efnahagsráðuneytisins um bættan ríkisrekstur, ekki síst er varðar innkaup hins opinbera. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi aðhalds og eftirlits þegar kemur að umbótum í ríkisrekstri, að fylgja eftir framkvæmd fjármála í rekstri ríkisins og því hvernig fjármunir eru nýttir, í hvað fjárveitingar fara og hvernig þær nýtast. Ráðherrar þurfa á hverjum tíma að fara yfir verkefni málefnasviða sinna og velta því upp hvernig hægt er að gera betur.

Meiri hlutinn gerir tillögur um auknar fjárheimildir á nokkrum málefnasviðum velferðarráðuneytisins til viðbótar við verulega aukningu sem er að finna í frumvarpinu sjálfu. Tillögurnar eru ekki veigamiklar í hlutfalli við umfang málaflokksins en þá ber að hafa í huga að í frumvarpinu er lagt til að framlög til sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu auk lyfja og lækningavara aukist um samtals 16,3 milljarða kr. að raungildi milli ára. Því verður ekki annað sagt en að frumvarpið sé í samræmi við áform hæstv. ríkisstjórnar um uppbyggingu í þessum málaflokkum.

Meiri hlutinn gerir að auki tillögu um 400 millj. kr. aukin útgjöld vegna heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, auk 50 millj. kr. fjárveitingar til Sjúkrahússins á Akureyri, eins og fram kemur í sérstakri breytingartillögu sem fylgir nefndaráliti. Gert er ráð fyrir að velferðarráðuneytið kveði á um nánari skiptingu framlagsins í samræmi við stefnumörkun í heilbrigðismálum sem birtist í næstu fjármálaáætlun og kynni hana bæði fyrir forstöðumönnum og fjárlaganefnd. Sérstaklega þarf þar að hafa í huga geðheilbrigðismál en ég vil nefna hér að fulltrúar allra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni — utan Vestfjarða sem ekki komust vegna ófærðar, það var ekki flogið — komu fyrir nefndina og fóru mjög vel yfir stöðu sinna mála. Því leyfi ég mér að segja að við fögnum því að geta aukið í framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.     

Starfsemi hjúkrunarheimila og önnur öldrunarþjónusta er nú þegar veigamikill þáttur í heilbrigðis- og félagsþjónustu hér á landi og þegar litið er til aldurssamsetningar þjóðarinnar getur enginn vafi leikið á því að þessi rekstur mun aukast til muna á næstu árum og áratugum.     Rekstur hjúkrunarheimila er víða þungur og í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sveitarfélögin telja sig greiða allt að 1 milljarð kr. með rekstrinum sem ekki fæst bættur. Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði að undirlagi Alþingis og birt var árið 2014 kemur fram m.a. að launakostnaður hafi verið að meðaltali 76% rekstrargjalda þeirra. Samtök þessara stofnana sem komu fyrir nefndina staðfestu þessar upplýsingar. Það er nauðsynlegt að taka mið af þessu og fleiru er varðar rekstrarhagkvæmni hjúkrunarheimila þegar teknar verða ákvarðanir um byggingu þeirra og rekstur sem áformað er í stjórnarsáttmála.

Meiri hluti fjárlaganefndar hvetur til samráðs með samtökum sveitarfélaga, samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og stjórnvöldum um markvissa vinnu um efldan og bættan rekstur.

Í frumvarpinu er lagt  til að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað í ársbyrjun 2018 í 100.000 kr. á mánuði. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður einnig uppfærð frá miðju næsta ári til að lækka kostnað þessara hópa.

Í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar verður auknu fjármagni varið til útfærslu hækkunar bóta almannatrygginga til tekjulágra örorkulífeyrisþega sem halda einir heimili. Í tillögu fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir hækkun framfærsluviðmiðs um 6.840 kr. til að ná 300.000 kr. hækkun frá 1. janúar 2018. Breytingartillaga meiri hluta fjárlaganefndar felur í sér að hækka heimilisuppbót sérstaklega umfram almennar bótahækkanir um þessa fjárhæð. Sú leið er til þess fallin að draga úr svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu og kemur betur til móts við gagnrýni Öryrkjabandalagsins á útfærslu hækkunarinnar í 300.000 kr. Auk þessa hefur hún þau áhrif að þeir örorkulífeyrisþegar sem búa einir og uppfylla skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar munu fá hærri greiðslur frá almannatryggingum og hækkar þannig hlutfall þeirra lífeyrisþega sem fá hækkunina.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að hæstv. ríkisstjórn ætlar að efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu. Tilgangurinn er að reyna að skapa sátt og einfalda kerfið um leið og öryrkjum er tryggð framfærsla og kjör þeirra leiðrétt. Fyrir þá sem það geta er mikilvægt að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og tryggi framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu og jafnframt er mikilvægt að atvinnulífið verði virkur aðili í því verkefni. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins komu fyrir nefndina og fóru vel yfir þessi mál og stöðu þessara hópa. Ég ítreka hér að þeim áformum sem bæði hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félagsmálaráðherra hafa boðað verður fylgt eftir.

Hvað varðar málefni fatlaðs fólks er tryggt að þeir sem hafa notið svokallaðrar NPA-þjónustu njóti hennar áfram á árinu 2018 og fylgir fjármagn svo hægt sé að fjölga samningum. Þetta tengist máli sem við samþykktum áðan um framlengingu bráðabirgðaákvæðis og fjölgun þessara samninga inn á næsta ár.

Meiri hlutinn gerir hér 70 millj. kr. breytingartillögu við frumvarpið, þar af skulu 30 millj. kr. fara til þeirra sem þurfa á sólarhringsmeðferð í öndunarvél að halda. Þó er vitað að til framtíðar þarf að fjölga samningum eins og kemur fram í nefndaráliti hv. velferðarnefndar um það mál sem ég minntist á. Nánari útfærsla á því bíður meðferðar velferðarnefndar, sem hefur frumvörp um félagsþjónustu sveitarfélaga og málefni fatlaðs fólks með miklar stuðningsþarfir til umfjöllunar.

Af þeim breytingum sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir til útgjaldaauka flokkast allmargar tillögur undir menningarmál. Framlög háskóla þróast að mestu í takt við breytingar á fjölda nemenda en í frumvarpinu nú er einnig að finna viðbótarframlög bæði vegna kennslu og rannsókna í háskólum. Hækkanirnar eru áfangi að því markmiði sem fram kemur í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar að framlög til háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna innan fárra ára. Ég ítreka hér, virðulegi forseti, að í umfjöllun nefndarinnar var alveg skýrt að það á ekki að vera sjálfstætt markmið að auka útgjöld bara til að ná slíkum markmiðum heldur verður það að hafa einhvern tilgang. Við hyggjumst fylgja því mjög vel eftir að þessi viðmið fái tengingu við bætt skólastarf, ef ég get orðað það þannig.  

Í frumvarpinu er þó nokkur aukning til samgöngumála. Meiri hlutinn gerir einnig tillögur til breytinga á framlögðu frumvarpi og leggur til hækkun sem nánar er skýrð í tillögunni sjálfri.

Áhersla meiri hluta nefndarinnar er á umferðaröryggismál og almenningssamgöngur. Samningur um almenningssamgöngur við landshlutasamtök hefur verið í gildi um nokkurn tíma. Ábendingar í umsögnum sveitarfélaga um verkefnið benda til að tímabært sé að endurmeta og endurskoða það fyrirkomulag.

Meiri hlutinn leggur til að horfið verði frá þeirri skerðingu sem boðuð var í fjárlagafrumvarpinu á framlögum til náttúrustofanna átta sem starfa allt í kringum landið. Náttúrustofurnar sinna ýmsum mikilvægum verkefnum og brugðist er við þessari stöðu í breytingartillögu meiri hlutans. Meiri hlutinn beinir því til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að við endurskoðun samninga um rekstur náttúrustofa verði fyrirkomulag og fjármögnun þeirra tekin til skoðunar.

Fulltrúar sýslumanna komu jafnframt fyrir nefndina og fóru yfir starfsemi sína og stöðu. Frá því í ársbyrjun 2015 hefur því miður ekki tekist að vinna úr þeim miklu breytingum sem þá voru gerðar á fjölda sýslumannsembætta og starfsemi þeirra. Beinir meiri hlutinn þeirri áskorun til hæstv. ríkisstjórnar að hún vinni að því að efla embættin og tryggja að þau geti gegnt hlutverki sínu eins og vera ber.

Rík áhersla er í stjórnarsáttmála lögð á eflingu Alþingis og í frumvarpinu má sjá fyrstu skref í þeim efnum. Lagt er til að framlag vegna sérfræðiaðstoðar við þingflokka verði aukið. Einnig má nefna að skrifstofa Alþingis verði efld í þessu sambandi, m.a. til að tryggja að Alþingi hafi faglega þekkingu til jafns við ráðuneytin sem og að tryggja faglegan stuðning við störf forsætisnefndar, nefndasviðs og þingfundaskrifstofu.     Er það í fullu samræmi við þau áform sem birtast skýrt í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Meiri hlutinn gerir enn fremur tillögur um viðbótarframlög til skrifstofu Alþingis og umboðsmanns Alþingis samhliða þessu.

Meiri hlutinn vekur í áliti þessu sérstaka athygli á nokkrum málum sem fram koma í frumvarpinu þó að ekki séu gerðar tillögur til breytinga fyrir 2. umr. frumvarpsins. Þar vil ég nefna barnabætur og umfjöllun um varasjóði fjárlaga þar sem meiri hlutinn telur að marka þurfi skýra stefnu um uppbyggingu varasjóða málaflokka.

Ég tek fram að það var ágætisumræða um varasjóði í lögum um opinber fjármál og tilgang og notkun þeirra í umræðu hér um fjáraukalagafrumvarp. Meiri hlutinn hvetur til þess að skipaður verði starfshópur um stefnumörkun um sölu og útleigu bújarða.

Þá hafa húsnæðismál verið til umræðu og umfjöllunar nefndarinnar. Sómasamlegt húsnæði á viðráðanlegum kjörum er meðal þess sem gefur hugtakinu velferð merkingu. Meiri hlutinn hvetur hæstv. ríkisstjórn til að fylgja eftir fyrirætlunum í stjórnarsáttmála og stuðla að umbótum í húsnæðismálum, sérstaklega að efla stuðningskerfi og lækka þröskuld ungs fólks og tekjulægri inn á húsnæðismarkaðinn. Þetta er eitt af þessum málum sem við getum sagt að ekki hafi unnist tími til á þessum skamma tíma til að setja mark sitt á.

Það þarf að marka langtímaáætlun í ferðaþjónustu í samvinnu við hagaðila. Því tengt hefur hæstv. ríkisstjórn boðað aukið samráð á flestum sviðum og hvetur meiri hlutinn hæstv. ríkisstjórn til að fylgja því vinnulagi fast eftir.

Aðrar þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til á gjaldahlið er að finna í sérstöku fylgiskjali með skýringum og vísa ég frekar til þess.

Ég þakka allri hv. fjárlaganefnd fyrir mikla og góða samvinnu sem og riturum og starfsmönnum nefndasviðs. Ég held að ég leyfi mér alveg að segja að dagskráin sé þéttari en ég hef átt að venjast þann skamma tíma sem ég hef setið á Alþingi og það er alveg ótrúlega góður vinnuandi í nefndinni miðað við aðstæður. Fyrir það vil ég þakka sérstaklega.

Ég legg að svo mæltu til að frumvarpið verði samþykkt með tillögðum breytingum meiri hlutans en gangi síðan að nýju til nefndar fyrir 3. umr. að lokinni atkvæðagreiðslu.

Undir nefndarálit þetta rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.