148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir andsvarið. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hv. þingmaður kom inn á. En ég er eðlilega ekki alveg sammála hv. þingmanni vegna þess að ég er mikill stuðningsmaður hv. ríkisstjórnar og tel þvert á móti að á mjög skömmum tíma hafi hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur náð að gefa tóninn inn í þær fyrirætlanir sem birtast í stjórnarsáttmálanum. Það er veruleg aukning í heilbrigðiskerfið, það er veruleg aukning til menntamála. Háskólarnir fá aukið framlag, framhaldsskólarnir fá aukin framlög. Það eru mjög önnur verkefni sem fyllsta ástæða hefði verið til að fara betur í í ræðu. Ég nefni líka samgöngurnar, þótt það sé hlutfallslega minni aukning þar.

Síðan höfum við reynt í störfum nefndarinnar að bæta við hér og þar. Ég get nefnt að við gerum ágætlega í tillögum meiri hluta nefndarinnar, við bætum í heilbrigðiskerfið, af því að við vorum að ræða það; til heilbrigðisstofnana á landinu; í samgöngur, ég get nefnt Grindavíkurveg sem er brýnt verkefni; í umhverfismál, þjóðgarðsmiðstöð; til margra félagasamtaka þar sem er mjög góð starfsemi. Náttúrustofurnar ræddi ég áðan. Það er því ýmislegt sem við erum að gera á mjög skömmum tíma sem er jákvætt og gefur tilefni til aukinnar bjartsýni.