148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:46]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal vera sammála því að lög um opinber fjármál hafi að vissu leyti sannað gildi sitt út af aðstæðum, aðallega að því marki að allir gallarnir á þeim hafa opinberast og ekki hefur verið gert ráð fyrir afbrigðilegu ferli eins og við höfum lent í varðandi kosningar og svoleiðis. En þau hafa sannað gildi sitt á þann hátt að allir sem eru í umræðunni virðast vera mjög vel á nótunum varðandi það hvernig þetta ætti að vera t.d. í tengslum við fjáraukalögin, hvað við gerum rangt þar vegna aðstæðna. Ég hlakka til að fara í eðlilegt fjárlagaferli þar sem maður getur rakið það hvernig stefnumótunin kemur inn í fjárlögin.

Eitt atriðið fannst mér vanta og það er stefnumótun þingsins, hvernig hún nær inn í fjármálaáætlunina. Ríkisstjórnin kemur þar og skilar inn stefnum sínum, en Alþingi hefur væntanlega einhvers konar aðkomu eða breytingarmöguleika á því hvernig stefnan er þar fram sett. Ég er ekki viss um að gert sé ráð fyrir breytingartillögum sem ganga þar. Það væri áhugavert að heyra skoðanir hv. formanns fjárlaganefndar á því í framhaldi af því að við tökum fjármálaáætlunina næst, sem hefur náttúrlega áhrif á fjárlögin. Ég minni á kynningu ráðuneyta í upphafi næsta árs, alla vega það, og gestina sem koma ítrekað fyrir nefndina.