148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvör hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Hann kom að því í fyrra andsvari að gestum hafi verið skammtaður knappur tími. Ég get tekið heils hugar undir það, sérstaklega þegar við erum að fara yfir málefnasviðin með ráðuneytunum. Ég tek þetta í raun og veru sem hvatningu til þess að halda áfram. Auðvitað er eftirlitsþátturinn mjög ríkur í öllu fjárlagaferlinu. Það er eiginlega tilhlökkunarefni, vil ég segja, að takast á við það og komast í gang með það ferli sem stefna fjármálaáætlunar er. Já, við skulum bara stefna að því. Ég tek því sem hvatningu frá hv. þingmanni að fá ráðuneytin til okkar aftur og fara af meiri dýpt í málefnasviðin og málefnaflokkana. Það verður jafnframt spennandi að fylgja hugmyndum um umbætur til að auka skilvirkni og nýtingu fjármuna. Auðvitað ætti nefndin ekki síður að verja miklum tíma í það en bara í að rýna eitt fjárlagafrumvarp á einhverjum tímapunkti, að taka það í því samhengi. Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki alveg hugmyndinni með stefnumótun þingsins og þeim vangaveltum, en við getum tekið þá umræðu hvenær sem er, hv. þingmaður og ég.