148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og nefndarmanni hv. fjárlaganefndar, Ágústi Ólafi Ágústssyni. Ég kynntist þekkingu hv. þingmanns á hagstærðum vel í samstarfi okkar í nefndinni. Hv. þingmaður beitti hér ágætlega talnaleikfimi með lágum hlutföllum og þetta var prýðisgóð ræða. Ég vil hins vegar fara á bls. 347 í frumvarpinu þar sem er ágæt tafla um framlög til heilbrigðiskerfisins. Það er sannarlega forgangsraðað í það.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar eru 0 kr. til Landspítalans í viðbót — en það eru ekki 0 kr. í frumvarpinu svo því sé haldið til haga. Það eru settir 21 milljarður í heilbrigðiskerfið. Á föstu verðlagi er það 7,1% aukning. Viðbrögð meiri hluta nefndarinnar voru þau að bæta í fyrir sjúkrastofnanir á landsbyggðinni til að nálgast þau hlutföll. Hæstv. ráðherra hefur gert ágætlega grein fyrir því, m.a. í fjölmiðlum, hvernig þessi skipting er og hver framlögin eru.

Hv. þingmaður kom miklu meira inn á tekjuöflunarkerfin. Hefði hv. þingmaður talið ráðlegt að breyta helstu skattkerfum þjóðarinnar á hálfum mánuði?