148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að svara síðustu spurningunni strax — já, þá held ég að við hefðum átt að fara í meiri breytingar á skattkerfinu. Við erum núna að hækka fjármagnstekjuskattinn um 2 prósentustig. Hefði verið möguleiki að hækka hann um 2 prósentustig í viðbót? Við erum búin að ræða hér aftur og aftur hugmyndina um að auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Og takið eftir því að við erum alltaf að missa eitt og eitt ár í viðbót fyrst sú tekjuleið er ekki nýtt að auka tekjur af erlendum ferðamönnum, sem eru 2,5 milljónir í dag og voru 500.000 árið 2010. Við missum alltaf af þeim möguleika að fá auknar tekjur af erlendum ferðamönnum vegna þess að greinin þarf líka einhvern aðlögunartíma o.s.frv. Allir flokkar voru með hugmyndir um skattbreytingartillögur í aðdraganda kosninga þannig að vitanlega hefði það verið hægt. Annað eins hefur gerst á styttri tíma í þessum sal. Þannig að: Já, svo ég svari þeirri spurningu.

Þið kallið tölfræði mína alltaf talnaleikfimi. Þið megið kalla hana hvað sem er en ég er hrifinn af tölum. Ég ber þetta frumvarp saman við frumvarp fyrri ríkisstjórnar. Það er rétt að það voru eitt stykki kosningar þarna á milli og það eru tveir nýir flokkar í ríkisstjórn, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn. Þess vegna lít ég á hvað þið hafið gert, hver breytingin er eftir að Viðreisn og Björt framtíð fóru og þið komuð inn í staðinn. Breytingin er bara 2,2% og það eru 0 kr. í Landspítalann þegar ég ber saman frumvörpin. Það er rétt, bara svo það sé alveg á hreinu, að Landspítalinn fær 0 kr. eftir meðferð fjárlaganefndar.

Auðvitað er það engin sókn. Formaður fjárlaganefndar hlustaði á forstjóra Landspítalans sem sagði: Okkur vantar 2,7 milljarða bara til að halda sjó. Af hverju gerum við það ekki bara? Þá hefði ég um eitthvað annað að tala en Landspítalann.