148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það sem ég velti aðallega fyrir mér er að þessi ríkisstjórn þarf sannarlega á stjórnarandstöðu að halda. Það er mjög mikilvægt að hún fái öfluga stjórnarandstöðu frá þeim sem ætla að standa vaktina varðandi jöfnuð og réttlæti í landinu. Ég vil það. Mér finnst það mikilvægt.

En mér finnst líka mikilvægt að sú stjórnarandstaða sé sanngjörn og sé ekki með einhverjar talnaæfingar sem eru að jafnaði leið til að drepa umræðunni á dreif, því að það er alveg nóg efnislega til að takast á um þó að maður sé ekki líka með einhverjar slíkar æfingar. Ég gæti alveg staðið hér og sagt: Er nú allur viðsnúningur Samfylkingarinnar í breytingartillögum í fjárlagafrumvarpinu 2,2%? Með 18 milljarða breytingartillögu núna við 2. umr. fjárlaga? Er það nú öll breytingin sem Samfylkingin er að boða? Er það nú allur munurinn á núverandi ríkisstjórn og óskalandi Samfylkingarinnar?

Ég held að við eigum að reyna að takast á með öðrum hætti því að það er sannarlega grundvöllur til þess.

Það sem mig langar að segja í fyrsta lagi, því að hv. þingmaður talar um heilbrigðiskerfið og velur sér viðmiðunartölur eftir því hvað hentar málflutningnum hverju sinni, er að síðasta ríkisstjórn ætlaði að bæta við 13 milljörðum í heilbrigðiskerfið frá síðustu fjárlögum. Í nýju fjárlagafrumvarpi hækkaði sú upphæð um 8 milljarða á tveimur vikum, í 21 milljarð. Það er aukning upp á 61,5% í auknum framlögum til heilbrigðismála milli fyrra og síðara frumvarps. Eigum við að taka einhverjar svona æfingar í því hvaða prósentur henta umræðuefninu á hverjum tíma?

Hv. þingmaður lýsti eftir aukinni innspýtingu í greiðsluþátttöku sjúklinga. Þar höfum við bætt við 500 millj. kr. Fyrst hv. þingmaður talaði þar um núll, eins og víðar. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hann telji að sé gott markmið fyrir jafnaðarmenn í greiðsluþátttöku sjúklinga á Íslandi.