148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra kallar eftir öflugri stjórnarandstöðu. Við skulum reyna að standa undir því og veita henni öfluga stjórnarandstöðu. Ég veit ekki betur en að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi sjálf verið mjög öflug í stjórnarandstöðu. Hún skilur væntanlega úr hvaða átt við komum. Hæstv. heilbrigðisráðherra talar um talnaæfingar. Um hvað snúast fjárlög? Þau snúast um tölur og hvaða pólitík þessar tölur endurspegla. Ég held einmitt að meiri hlutinn sé að drepa málunum á dreif en ekki stjórnarandstaðan, með því að bera saman þann árangur sem þið náðuð miðað við það frumvarp sem þið gagnrýnduð svo harðlega.

Tölum aðeins um tölur. Hvaðan koma þær tölur sem ég er að tala um? Þær koma frá Landspítalanum sjálfum sem sagði: Okkur vantar 2,7 milljarða. Þær koma frá Sjúkrahúsinu á Akureyri: Okkur vantar 400 milljónir. Þær koma frá hjúkrunarheimilunum sem tala bókstaflega um krónulækkun á milli ára. Þær koma frá heilbrigðisstofnunum úti á landi sem tala um að þær vanti milljarð en fá einungis helming núna eftir meðferð fjárlaganefndar. Tölurnar koma frá undirstofnunum hæstv. heilbrigðisráðherra.

Þess vegna kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir að verið sé að gagnrýna að við endurómum óskir þessara lykilstofnana.

Varðandi greiðsluþátttökuna hefur Samfylkingin beinlínis lagt fram þingmál um að greiðsluþátttaka einstaklinga þurfi að lækka að minnsta kosti niður í 35 þúsund, að þakið verði 35 þúsund krónur.