148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna sérstaklega markmiðssetningu ríkisstjórnarinnar um að ná fjármögnun háskólastigsins á par við OECD-löndin á fjórum árum og á par við Norðurlöndin á átta árum. Það eru heilmiklir fjármunir. Það væri kannski ágætt að fá ráðherra til að segja okkur í seinna andsvari hversu mikið það kostar. Mig minnir að hjá fjárlaganefnd hafi verið talað um að það kostaði um 3,4 milljarða. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig hæstv. menntamálaráðherra gengur að tryggja þessa auknu fjármuni í háskólastigið og vona að það gerist ekki bara í blálokin heldur á þessu kjörtímabili. Við sjáum hversu illa hæstv. heilbrigðisráðherra gengur að tryggja fé í málaflokk sinn. Ég vona svo sannarlega að hæstv. menntamálaráðherra gangi betur. Hún á svo sannarlega bandamenn í okkur hjá Samfylkingunni og fleirum til að tryggja hér vel fjármagnað háskólastig. Það skiptir gríðarlega miklu máli upp á lífskjaraaukningu, eins og hér hefur komið fram, en ekki síst lífskjarajöfnuð.

Framhaldsskólarnir fá 1,8% aukningu. Ég fagna allri aukningu og veit að ráðherrarnir þurfa að hafa fyrir því að kljást við fjármálaráðuneytið og forsætisráðherra væntanlega líka um að fá peninginn í sinn málaflokk. Þá skulum við gera það. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra að ná hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, sem eru verkstjórar þessarar ríkisstjórnar, í þann leiðangur að hér sé staðið við loforð þessara flokka í kosningabaráttunni og að tryggt sé aukið fjármagn í menntamálin, ekki síst framhaldsskólana. Fulltrúar framhaldsskólanna töluðu um að þeir væru komnir að þolmörkum. Þá hlustar maður á það. En vandinn er ekki síst í heilbrigðismálum, eins og hér hefur verið rætt sérstaklega.

Mig langar nú í seinna andsvari að skjóta spurningu til hæstv. menntamálaráðherra, því að hún hefur talað um nauðsyn þess að afnema hér bókaskattinn: Hvernig mun hún greiða atkvæði þegar sú tillaga verður borin hér upp seinna í kvöld?