148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða íslenskuna, ríkisstjórnin leggur áherslu á að setja hana í algert öndvegi. Við boðum heildstæða nálgun á það hvernig við ætlum að styrkja íslenska tungu. Við höfum sagt og segjum í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að afnema virðisaukaskatt á bækur. Við ætlum líka að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla vegna þess að þeir eiga í verulegum erfiðleikum þessa dagana, ekki síst varðandi samkeppni frá útlöndum. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi tekið eftir máltækniverkefninu sem er að fullu fjármagnað. Það hefur engin önnur ríkisstjórn gert. Það er metnaðarfullt og flott verkefni sem við stöndum fyrir í samvinnu við atvinnulífið. Ég held að út úr því muni koma mjög spennandi hlutir sem muni styrkja íslenskuna. Ég tel samt brýnt að sú nálgun sem við höfum sé heildstæð.