148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu málræktarátaki svo sannarlega og fagna áherslum í stjórnarsáttmála um að hér eigi að leggja áherslu á starfsnám og iðnnám. Það er löngu tímabært. Ég held að við í Samfylkingunni og í stjórnarandstöðunni séum alveg sanngjörn hvað það varðar. Það er margt jákvætt í stjórnarsáttmálanum, að sjálfsögðu.

Þess vegna var fjárlagafrumvarpið svo mikil vonbrigði. Þegar standa átti við fögur fyrirheit varð lítið um efndir.

Menntakerfið er eitt það mikilvægasta sem við getum hlúð að. Við erum að ganga í gegnum fjórðu iðnbyltinguna og eigum að stefna að því að vera samfélag sem byggir á mannauði og menningu, fara frá því að vera sú hráefnisþjóð sem við erum, frumframleiðsluþjóð. Þess vegna skiptir svo miklu máli að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra tryggi að hæstv. menntamálaráðherra fái þá peninga sem hún þarf til að tryggja hér undirstöður menntakerfisins. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra á bandamenn í Samfylkingu hvað það varðar.