148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og nefndarmanni hv. fjárlaganefndar, Ólafi Ísleifssyni, fyrir prýðisræðu og vandað nefndarálit. Ég get tekið undir margt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og ætla að koma inn á örfáa þætti af þeim sem fram komu.

Hv. þingmaður kom mjög vel inn á kjör eldri borgara og öryrkja. Mig langar að spyrja. Það hefur komið vel fram, bæði í stjórnarsáttmála og máli hæstv. félagsmálaráðherra, að búið er að boða samráð við Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp og þá hópa um að grípa boltann þar sem þessir hópar létu hann frá sér þegar var farið í kerfisbreytingar varðandi kjör eldri borgara. Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér? Er ekki skynsamlegt að fylgja því eftir með þeim hætti frekar en að ráðast í miklar kerfisbreytingar á jafn skömmum tíma?

Í annan stað tek ég undir allt sem hv. þingmaður segir um verðtryggingu. Við deilum þeim skoðunum. Hann bendir á húsnæðisliðinn. Húsnæðisliðurinn stendur fyrir þó þeim verðlagshækkunum eða breytingum á vísitölu sem hafa orðið en nú eru merki um að það fari að hægja á hækkun húsnæðisverðs. Er ekki skynsamlegt að skoða það áður en við förum að taka hann út? Ég læt hjá líða samræmi við aðrar þjóðir, hvernig þær haga útreikningi á vísitölu sinni.