148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:52]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ágætisræðu og ítarlegt og gott nefndarálit þar sem komið er víða við. Hann gerði það einnig í ræðu sinni. Mig langar þó að víkja aðeins að kaflanum sem lýtur að málefnum öryrkja. Ég held að margt af því sem þar kemur fram séu mjög jákvæðar hugmyndir að breytingum sem lúta að þessum málaflokki. Mig langaði aðeins að spyrja í fyrstu lotu hv. þingmann út í þær breytingar sem meiri hluti fjárlaganefndar kemur með sem lúta að því að gerðar yrðu tillögur um að auka um 166 milljónir til málaflokksins og gera breytingar sem miða að því til þess að ná þessum 300 þús. kr. sé það ekki framfærsluviðmiðið sem hækki heldur heimilisuppbótin. Ég held að þetta séu jákvæðar breytingar þótt þær séu ekki stórar.

Síðan langaði mig að spyrja hv. þingmann svolítið á sömu nótum og formaður fjárlaganefndar áðan. Það kom fram í máli hv. þingmanns að kerfið sem við erum með er gríðarlega flókið og margir þættir spila þarna inn í. Er ekki mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu sem hefur verið í gangi og lýtur að því að endurskoða almannatryggingakerfið gagnvart þessum hópi fólks? Er ekki heppilegri vettvangur til að gera slíkt að ráðast þó í einhverja dýpri vinnu hvað það snertir en að ráðast í mjög stórar kerfisbreytingar á nokkrum dögum þegar við erum að ljúka við vinnu fjárlagafrumvarps?

Á sama tíma segi ég að það er margt mjög jákvætt sem hv. þingmaður kemur inn með sem mögulegar breytingar sem þyrfti (Forseti hringir.) að ráðast í.