148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félags- og jafnréttisráðherra fyrir innlegg hans sem ég tel afar jákvætt í öllu tilliti. Ég vil byrja á að taka fram, eins og ég gerði gagnvart hv. formanni fjárlaganefndar, að af minni hálfu væri ekki lagt upp með neina tillögu um kerfisbreytingu sem yrði ráðist í á örfáum dögum heldur var innsti kjarninn í því sem ég sagði um fjárútlát í málaflokknum sá að ekki skyldi brugðist við ákalli aldraðra og öryrkja um að horfið yrði frá því að halda sig við þessi 4,6% vegna þess að undirstaða þeirrar breytingar er ekki réttleg fundin.

Það eru svo sannarlega margar jákvæðar hugmyndir að breytingum. Það er mjög skapandi og frjó hugsun á vettvangi Öryrkjabandalagsins. Það er heiður fyrir mig og samherja mína að taka upp tillögur þeirra og bera þær hér fram.

Að sjálfsögðu ber að virða og meta þá tillögu sem fram kemur af hálfu meiri hlutans um umræddar 166 milljónir. Það er a.m.k. betra að hafa þær en ekki.

Ég ítreka að lokum þakkir mínar til félagsmálaráðherra. Ég er sannfærður um að hann á eftir að reynast mjög dugandi í þessum málaflokki.