148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:56]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég veit að flokkur hv. þingmanns leggur mikla áherslu á þennan málaflokk og hann fær mikið pláss í nefndaráliti 2. minni hluta. Mig langar að fá sýn hv. þingmanns. Er ekki skynsamleg nálgun á þetta, takist okkur að ná saman um aðeins breytta hugsun um starfsgetumat, sem kæmi meira til móts við þær áherslur sem Öryrkjabandalagið hefur verið með, samhliða því að ráðast í umbætur á almannatryggingakerfinu, sem miða m.a. að mörgum þáttum sem hv. þingmaður kemur inn á, væri ekki heppilegt og jákvætt ef okkur tækist það og gætum sett það sem verkefni næsta árs þannig að við gætum komið inn í fjárlagafrumvarp og gert einhverja langtímaáætlun um breytingar (Forseti hringir.) og aukningu á ákveðna þætti í framhaldinu? Má ekki treysta því að Flokkur fólksins komi með (Forseti hringir.) í þá vegferð þegar lagt verður af stað í hana?