148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Það er margt í henni sem ber að taka undir, svo sem með löggæsluna, tannlækningar aldraðra og heilbrigðiskerfið.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður fjallaði líka aðeins um húsnæðislið vísitölunnar og einnig áhrif kolefnisskatts á vísitöluna og skuldir heimilanna.

Verðtryggingin er atriði sem við rökræðum frekar oft hér og af góðu tilefni. Þetta er fyrirferðarmikið fyrirbæri í okkar hagkerfi og efnahagsstefnu, mætti reyndar segja. Ég ætla ekki að rökræða við hv. þingmann um húsnæðislið vísitölunnar. Ég er ekki alveg sannfærður um það mál enn þá en hef ekki náð að kynna mér það nógu vel til að mynda mér endanlega skoðun á því. Ég hef hins vegar frekar sterka skoðun á verðtryggingu íbúðarlána, er eins og margir aðrir í þessu landi sjálfur með íbúðalán og þekki bæði verðtryggð og óverðtryggð lán mætavel og hef reynt að reikna verðtryggt jafngreiðslulán á sínum tíma, sem mér tókst ekki. Síðan þá hef ég fengið betri útreikninga. En þau eru alla vega mjög flókin.

Þegar hv. þingmaður spyr nokkrum sinnum af hverju fjármálastofnunum séu réttar 500–600 milljónir í auknar kröfur á heimilin er svarið auðvitað það að fólk tekur verðtryggð lán. Ég skil mætavel að hægt hafi verið að kvarta undan því þegar fólk átti ekki kost á neinu öðru. En í dag hefur fólk valið. Hvers vegna? Vegna þess að samningurinn sem það gerði þýðir að það fær lægri vexti gegn því að lánið sé verðtryggt. Það tekur á sig verðbólguáhættuna og bankinn lækkar vextina á móti. Það er hægt að snúa þessu öfugt. Ég hagaði þessu öfugt sjálfur. En það kostar óheyrilega mikið af peningum.

Ég velti fyrir mér: Ef verðtrygging væri ekki til staðar (Forseti hringir.) — og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður sé á móti verðtryggingu, hann leiðréttir mig ef það er rangt — hvað ætti að koma í staðinn, með hliðsjón af því hversu fyrirferðarmikið þetta fyrirbæri er, hvað það varðar að gera langtímafjárfestingar og langtímaskuldbindingar yfir höfuð mögulegar á Íslandi?