148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni innlegg hans. Varðandi verðtryggð lán, hvað ætti að koma í staðinn? Verðtryggingin, eins og ég gat um, er dæmi um fjármálasnilli af æðstu gerð sem hefur bara óvart farið fram hjá nágrönnum okkar. Ég hvet hv. þingmann til að velta fyrir sér: Nú fylgjast til dæmis Norðmenn vel með á Íslandi. Þeir eru með mynt sem sveiflast upp á tugi prósenta ef svo ber undir og er ekki langt að leita dæma um það, vegna sveiflna á verði olíu á alþjóðlegum markaði. Samt sem áður hafa þeir stillt sig um að taka upp þetta fyrirkomulag. Hvað ætti að koma í staðinn? Svarið er einfalt: Bara vestrænir hættir á fjármálamarkaði.

Verðtryggingin er ekki notuð almennt í heiminum. Seðlabankinn þykist hafa fundið einhver dæmi, nefnir Úrúgvæ og eitthvað í því sambandi. En hún er ekki notuð. Þetta liggur alveg fyrir og kemur glögglega fram, m.a. í skýrslu Seðlabankans. Sú ósk sem hér er sett fram er ósköp einfaldlega sú að við styðjumst við og tökum upp vestræna háttu í þessu og séum með sams konar kerfi og gerist og gengur í nágrannalöndum okkar.

Ég ítreka það sem ég segi: Það eru svo alvarlegir ágallar á þessu fyrirkomulagi að það er ekki fólki bjóðandi. Skuldbindingin sem lántaki verðtryggðs láns gengst undir er svo víðtæk að það stappar nærri að hann sé sviptur fjárforræði á lánstímanum.