148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hlýddum hér á ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar, nefndarmanns í 3. minni hluta hv. fjárlaganefndar, um nefndarálit. Ég þakka hv. þingmanni samstarfið í fjárlaganefnd og prýðisræðu; hann kom inn á margt sem ég get tekið undir.

Við deilum áhuga á bættri fjárlagagerð og eftirliti með fjárveitingum. Hv. þingmaður er býsna harðorður um umbúnað laga um opinber fjármál, ef ég skil hann rétt, mögulega það sem snýr að fjárauka, og einnig um frumvarpið sjálft, framsetninguna. Spurningar mínar eru tvær:

Fyrri spurningin snýr að frumvarpinu sjálfu. Í lokakafla nefndarálitsins, svo að ég vitni í það, til að spurningin verði skýr, kemur fram að það sé illlæsilegt og flókið í framsetningu. Ég spyr: Hvaða kafla frumvarpsins er hv. þingmaður að vísa til?

Í nefndarálitinu er líka dálítið opið orðalag þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Forstöðumenn ríkisstofnana halda áfram að reiða sig á eftirlátssemi fjárveitingavaldsins í ljósi tíðra alþingiskosninga. Þeim hefur tekist býsna vel upp …“

Getur hv. þingmaður útskýrt það betur hvað hann á við?