148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér kom fram. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir gott samstarf. Það hefur verið gott að vinna með honum. Hann hefur verið afskaplega þægilegur og við höfum ekkert undan honum að kvarta í minni hlutanum. Ég er að sjálfsögðu mikill áhugamaður um það, við eigum það sameiginlega áhugamál, að vel verði unnið í þessari nefnd, að það verði gott samstarf og við bætum úr því sem þarf að bæta, m.a. framsetningu frumvarpsins.

Bara sem dæmi um það hversu mikilvægt það er að vanda þessa vinnu og að hún sé í anda laganna þá komu fulltrúar heilbrigðis- og velferðarráðuneytis á fund nefndarinnar. Í þennan málaflokk fara 400 milljarðar. Við fengum tæpa tvo klukkutíma til að ræða við þetta ágæta fólk. Það finnst mér mjög skammur tími þegar svona gríðarlegir fjármunir eru í húfi. Ég veit að nefndarmenn eru mér allir sammála um að við þurfum að bæta þetta. Ég mun að sjálfsögðu leggja mitt fram í þeim efnum.