148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er skammur tími. Við höfum lög um opinber fjármál sem segja hvernig við eigum að haga málum hérna. En eins og ég lýsti gera þau einfaldlega ekki ráð fyrir þessum aðstæðum. Það er kannski hluti af vandamálinu sem við þurfum að laga í rauninni af því að þetta gæti alveg gerst aftur, ekki endilega núna, en t.d. eftir 10 ár eða 15 ár, hver veit.

Eitt sem ég las ekki upp en er í nefndarálitinu er að í kjölfar þess að fara vel yfir málin núna á vormánuðum fyrir framkvæmd fjárlaga, af því við vitum ekki alveg hvað við erum að samþykkja, þá datt mér í hug að það væri kannski eðlilegt að nota fjáraukalög þar ef kemur í rauninni í ljós að það eru einhver verkefni eða eitthvað svoleiðis sem voru kannski ofáætluð eða áttu ekki að vera þarna eða henta illa og við fórum að nota fjárauka til lækkunar á heimildum til ríkisstjórnarinnar.

Annað sem hægt er að benda á er hvernig Bandaríkin meðhöndla fjárlög — ef ég fer ekki á mjög lítilli þekkingu um það í mjög grófri mynd — að þar sé þetta mun dínamískara, hægt sé að aðlaga það mun meira, þó það sé alveg skýr framtíðarsýn þá er hægt að stilla það meira til jafnóðum. Þó að þeir geri það ekki þannig þá myndi ég kannski leggja til að það væri ef til vill eitthvað slíkt innbyggt í þetta hjá okkur sem varasjóðirnir að vissu leyti eiga að taka tillit til. En eins og lýst var hérna áður í 1. umr. er fjármálastefnan líka dálítið hörð við okkur sem og fjármálaáætlunin. Við þurfum kannski að vera pínu dínamískari á meðan við erum að ná framkvæmdinni betur á fastara form á meðan við erum að læra.