148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég vil svo bæta við, og það var áhugavert sem hv. þingmaður var að segja, er að við megum auðvitað ekki umgangast lög um opinber fjármál eins og þar sé um eitthvert náttúrulögmál að ræða. Hér þurfum við að vera meðvituð eins og hv. þingmaður sagði, við þurfum að geta verið dínamískari, við þurfum að geta brugðist við aðstæðum sem við höfum ekki gert ráð fyrir í lögum um opinber fjármál, þar sem er bara gert ráð fyrir að ávallt sé kosið á sama tíma, ávallt sé fjármálastefna lögð fram á sama tíma. Þannig er veruleikinn auðvitað ekki. Það skiptir auðvitað máli að við séum meðvituð um það.

Þar kemur að því sem ég vildi ræða áðan sem varðar það að mjög mikilvægt er að fjárlaganefnd á nýju kjörtímabili fari yfir þá vinnu sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði í á síðasta þingi sem varðaði í raun og veru fjárstjórnarvald þingsins inni í þessum nýja lagaramma um opinber fjármál sem skiptir miklu máli að standa vörð um.

Svo vil ég segja það af því að hv. þingmaður nefndi fjármuni til forsætisráðuneytisins, ég vona að fulltrúar ráðuneytisins hafi gert grein fyrir þessu á fundi fjárlaganefndar. Þarna er auðvitað um að ræða ný verkefni á borð við tölfræði sem tengist málefnum Hagstofunnar og snýr að launatölfræði fyrir vinnumarkaðinn, en líka annarri tölfræði sem ég tel að við þurfum að gera verulega gangskör að á ýmsum sviðum.

Ég vil síðan nefna málefni þjóðaröryggisráðs sem heyra undir forsætisráðuneytið sem hafa ekki verið fjármögnuð hingað til. (Forseti hringir.) Ég vil líka nefna þá staðreynd að peningastefnunefnd sem ætlað var að skila nú um áramótin, hennar skil munu dragast fram á mitt næsta ár, bara svo ég geri lauslega grein fyrir stærstu liðunum í þessari 105 milljóna fjárhæð (Forseti hringir.) sem er hin nýja fjárhæð sem kemur inn til stefnumiða forsætisráðuneytisins. En ég hef ekki meiri tíma hér til útskýringa á þessu.