148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa góðu en líka erfiðu spurningu. Því er nú í fyrsta lagi til að svara að í ráðuneytinu er, eins og allir vita, gerð aðgerðaáætlunar í smíðum en það sem bætist við núna er að gera vegvísi um kolefnishlutleysið. Ég get satt best að segja ekki svarað hv. þingmanni fullkomlega um þetta eins og staðan er núna þar sem vinnan um vegvísinn er ekki farin í gang. Við gerum ráð fyrir að með stofnun loftslagsráðsins verði það eitt fyrsta og helsta hlutverk ráðsins að skoða akkúrat þetta. Ég skil alveg fullkomlega hvað hv. þingmaður er að vísa til en vil ekki úttala mig um þetta mál fyrr en sérfræðingar hafa skoðað það í gegnum loftslagsráðið.