148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bygging nýs spítala er mjög stór hluti af framlögum til heilbrigðismála og verður enn þá stærri á næsta ári. Mig minnir, ef ég fer með tölurnar rétt, að um 2,7 milljarðar eigi að fara í bygginguna núna og rúmir 9 milljarðar á næsta ári, þannig að það er gríðarleg aukning til heilbrigðismála, til viðhalds og uppbyggingar. Það hefur drabbast dálítið niður á undanförnum áratugum þannig að það er bara uppsöfnuð þörf þar sem verið er að vinna á móti. Við getum alveg tekið þann part með. Sá partur á alltaf að vera í lagi. Hann er ekki búinn að vera í lagi. Við erum tvímælalaust að vinna upp skuld. Ég spyr frekar um rekstur eða þjónustu sem þar er verið að vinna.

Vegna þeirra loforða sem við gáfum á þingi á síðasta ári langar mig að spyrja hver staða reksturs eða þjónustu heilbrigðiskerfisins verði í lok þessa árs miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið, sem eru mjög litlar. Við fengum þær á mjög stuttum tíma og er erfitt að grípa til þeirra. Getum við gefið svipuð loforð og við gáfum hér síðast, að skila alla vega rekstrinum og þjónustunni ekki í mínus eða með niðurskurði?