148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé almennt veikleiki að því er varðar íslenska heilbrigðis-, velferðar- og menntamál hversu veikan talnagrunn við höfum. Mér finnst það vera veikleiki. Í raun og veru þurfum við miklu sterkari hagtölugerð í velferðar- og heilbrigðismálum á Íslandi til þess að vita hvar við erum stödd og til þess að geta vitað hvert við eigum að sækja og hversu hratt við eigum að gera það.

Ég get ekki svarað hv. þingmanni nákvæmlega hvar við verðum stödd í lok árs. En ég veit að það er 8,2% aukning á milli ára fyrir Landspítalann. Hjá heilbrigðisstofnunum úti um land er 8,6% aukning. Og hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem hallar á þessum samanburði, er 6% aukning. Það er umtalsvert meiri aukning í rekstrarþáttinn en við höfum séð á milli ára miðað við núna, verði þetta frumvarp að lögum, þannig að við erum að sækja fram. En að mörgu leyti skortir okkur meiri og betri forsendur til þess að vita (Forseti hringir.) á hvaða grunni við stöndum. Mitt mat er það að heilbrigðismálin eigi að vera þannig málaflokkur að þau þoli ríkisstjórnarskipti án þess að fara í gegnum alvarlegar sviptingar. Við eigum að sammælast um þann part af samfélagssáttmálanum.