148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra andsvarið, frú forseti. Ég virði það auðvitað að hæstv. ráðherra er nýtekin við. Auðvitað er mjög eðlilegt að fólk þurfi að setja sig inn í málin við þær kringumstæður og það líði einhver tími þar til einhverjar svona gallharðar hugmyndir koma fram því að mér finnst við tala um þetta allt of oft í dálítið miklum frösum. Ég segi þess vegna fyrir það fyrsta að heilmikil vinna hefur verið unnin í menntamálaráðuneytinu og menntakerfinu almennt hvað varðar framtíðarstefnu menntakerfisins. Ég held að ég myndi segja: Tökum ekki of langan tíma í stefnumótunina. Það virðast vera helstu mistök ríkisstjórna almennt að eyða tveimur til þremur árum í hvítbækur eða einhvers konar stefnumótun, svo er enginn tími til að framkvæma. Það má jafnvel alveg nota vinnu sem fyrri ríkisstjórnir hafa unnið í þeim efnum, því oftar en ekki eru þær tillögur að meginefni til alveg ágætar. Það er þá bara kannski ágætt að leggja slíka vinnu til grundvallar og taka frekar hratt ákvarðanir um hvað hæstv. ráðherra vill gera og hvað ekki.

En ég myndi líka hvetja hæstv. ráðherra til þess að efla verulega samtalið við atvinnulíf og vinnumarkaðinn almennt hvað varðar þróun menntakerfisins. Það er rekið menntakerfi í atvinnulífinu sem þarf líka að geta unnið með hinu opinbera menntakerfi. Þar eru einhverjir milljarðar sem renna til þess kerfis á hverju ári frá atvinnulífinu beint. Um að gera að nýta það. Það er sennilega framtíðin þegar við horfum til fjórðu iðnbyltingarinnar. Ég vona að hæstv. ráðherra nýti það og ég vona að hún sé þá hlynnt því að sameina skóla líka til að auka hagkvæmni framhaldsskólastigsins.