148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að mjög brýnt er að efla alla samvinnu og stefnumótun er varðar menntakerfið. Ég held að þegar við erum að fara yfir það hvort sameina eigi skóla þá þurfum við sérstaklega að vanda til verka. Við munum að sjálfsögðu gera það.

Ég er sammála því að núna er lag og sérstaklega þegar við erum búin að fara í þær miklu breytingar er varða styttinguna. Deildar meiningar eru um styttinguna og hvort hún skili þeim árangri sem menn töldu að hún myndi gera. Ég tel að það dæmi sé allt of skammt á veg komið til að við förum einhvern veginn að meta það á þessu stigi. En mér finnst samt brýnt að við nýtum a.m.k. þá kosti sem fylgja henni. Það er alveg ljóst og rætt hefur verið um það á framhaldsskólastiginu að sparnaðurinn sem hefur komið vegna þessa sé ekki inni í kerfinu, hann er svo sannarlega þarna inni. Við erum líka að auka við í það og fjárframlög á hvern nemanda eru að hækka.