148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessi svör. Ég held að við séum allt of viðkvæm þegar kemur að því að tala opinskátt um mikilvægi skilvirkni og hagræðingar í opinberum rekstri. Fyrir fjárlaganefnd komu sýslumenn sem dæmi og kvörtuðu undan verulegum fjárskorti sem virtist raunverulegur, en hann var kannski ekki furðulegur þegar útgangspunktur sameiningar sýslumannsembættanna var sá að ekki mætti fækka skrifstofum og ekki mætti fækka starfsfólki. Það er auðvitað stærsti kostnaðarliður flestra opinberra stofnana. Það er þá bara frá upphafi lagt í það með pólitískri forskrift að ekki megi hagræða, að sameining sé ekki til hagræðingar.

Það sama á auðvitað við í menntakerfinu. Þegar við fækkum nemendum að jafnaði væntanlega um fjórðung í skólum, þá verður hver skóli talsvert óhagkvæmari rekstrareining og það hlýtur að kalla á hið augljósa, að við sameinum skóla til að bregðast við því og nýta þá hagræðið af því til fulls.