148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra andsvarið. Það er alveg rétt sem hún segir að mælikvarðarnir eru ekki bara fjárhagslegir og þeir eru ekki bara rekstrarlegir í einföldu samhengi. Það þarf einmitt að horfa til mannauðs, starfsumhverfis, starfsfólks og starfsanda á heilbrigðisstofnunum eins og alls staðar annars staðar. Án mannauðsins eru flestar þessar þjónustustofnanir ansi lítils virði. Þegar maður horfir á það umhverfi sem Landspítalinn hefur farið í gegnum t.d. á undanförnum árum er algjörlega ljóst að þar hefur verið unnið mjög mikið þrekvirki á þeim tímum þegar rekstri spítalans var hvað þrengstur stakkur skorinn.

Hvað varðar það sem hæstv. ráðherra nefnir um tilvísun til sérfræðilækna, eða kannski fyrst og fremst sérfræðilækna, þá er ég bara alveg sammála hæstv. ráðherra. Þó að við höfum örugglega ólíka sýn á hvaða hlutverk einkarekstur geti leikið í heilbrigðiskerfinu, ég held að það rekstarform geti alveg leikið ákveðna rullu, þarf ríkið líka að vera miklu betri kaupandi þeirrar þjónustu sem það kaupir af slíku kerfi. Það getur ekki verið einhver sjálftaka í gangi. Það má ekki nálgast samninga við sérfræðilækna eins og samninga við stéttarfélögin. Verið er að kaupa þjónustu af þessum aðilum, sem eru sjálfstæðir atvinnurekendur, líkt og hverjum öðrum þjónustuveitanda hins opinbera á markaði, hvort sem við horfum til vegagerðar, námsgagna eða heilbirgðisþjónustu. Við eigum auðvitað að gera mjög miklar og ríkar kröfur til gæða þeirrar þjónustu sem við fáum, og ekki hvað síst til kostnaðar hennar. Það hlýtur að vera megintilgangur slíks rekstrarfyrirkomulags að ríkið hafi af því beinan ávinning að fá hagstæðari þjónustu frá þessum aðila en það ella gæti keypt eða …