148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög áhugaverð spurning hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég held að fyrsta skrefið hljóti í það minnsta að vera að við hljótum öll að vilja sjá hér sameiginlegt greiðsluþátttökukerfi, alveg óháð því til hvaða kerfa heilbrigðiskerfisins við leitum til. Þá hljótum við að horfa til þess að það sé einhvers konar sameiginlegt þak af því að við getum verið að glíma við margháttaða krankleika. Það er lyfjakostnaður, það er spítala- og læknakostnaður, og það getur verið sálfræðikostnaður eða allt þrennt saman í einu. Ég held að það hljóti að alla vega að vera fyrsta skrefið að reyna að ná utan um að það sé eitthvert sameiginlegt þak á þessum þáttum sem grípi okkur þá þannig að það sé ekki aðskilið í þeirri sömu sílóhugsun og ég lýsti hér áðan. Það hlýtur að vera fyrsta verkefnið okkar að ná utan um það.