148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er heldur meiri frumútgjaldavöxtur í milljörðum talið núna en fyrir ári síðan. Það sem veldur líka vonbrigðum er að okkur tókst að ná um það ágætri sátt í þinginu fyrir ári síðan, þrátt fyrir að þar væri enginn meirihlutaforysta, að vinna innan ramma þágildandi fjármálastefnu. Við sammæltumst um það öll að setja það sem fyrsta þakið á útgjaldaþenslu okkar. Öll vildum við síðan sjá aukin útgjöld en með mismunandi áherslum. Það skapaðist síðan nokkuð góð sátt á endanum um að halda lokinu að einhverju leyti á þeim mikla þrýstingi sem fyrir er. Hann er alltaf mjög mikill á þessum tíma. Auðvitað er það alveg rétt að það er mjög erfitt að reka ríkissjóð með 40 eða 50 milljarða afgangi í fjárlögum á tíma sem þessum af því að kröfurnar eru um aukin útgjöld úti um allt samfélag. Þær eru allar vel rökstuddar og má vel skilja þær. En við þurfum að vera með skýr viðmið, skýrar reglur og verklag, til þess að verja framkvæmdarvald og þing fyrir hinum mikla útgjaldaþrýstingi.

Við tölum um lækkun tryggingagjalds eða mögulegt svigrúm og horfum til þess að atvinnutryggingagjald er talsvert hærra í dag en það þarf að vera til þess að fjármagna það atvinnuleysi sem við búum við núna. Þegar það eykst á ný er væntanlega mjög eðlileg krafa til ríkissjóðs að hann fjármagni það án þess að hækka tryggingagjaldið af því að í raun má segja að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi það inni hjá ríkissjóði núna. Þeim fjármunum hefur bara verið varið í annað. Þannig er um sjálfvirka sveiflujafnara að ræða, að við sjáum ákveðin útgjöld detta niður og ákveðna tekjuþætti aukast verulega við þessar kringumstæður, m.a. út af einkaneyslunni. Þess vegna er mjög mikilvægt að gæta aðhalds á þessum tímapunkti hagsveiflunnar.