148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:23]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki miklar athugasemdir við það þótt ráðherrarnir hlusti ekki á mig. Ég get alveg komið því áleiðis með öðrum hætti. En ég þakka þær fínu umræður sem hafa verið hér í dag og vil bara segja að við ræðum annað árið í röð fjárlög við afar sérstakar aðstæður. Að þessu sinni þó með þingmeirihluta en vissulega með þröngan tímaramma.

Ég get alveg tekið undir með mörgum af þeim sem hafa talað hér í dag, eins og hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni og fleirum, um hvaða áhrif þetta hafi sannarlega á vinnu fjárlaganefndar við að rýna fram komið fjárlagafrumvarp. En varðandi þau sjónarmið sem eru reifuð í þessari umræðu get ég að sjálfsögðu samsamað mig við mjög marga hluti, sama úr hvaða flokkum þeir koma.

Ég vil kannski fyrst af öllu ræða aðeins um efnahagsástandið, þá aðkomu og það ábyrgðarhlutverk sem við höfum sem fjárlaganefnd og sem Alþingi við fjárlagagerðina. Við erum að ráðstafa mjög stórum hluta verðmæta sem verða til í samfélaginu. Hjá fólkinu í landinu, heimilunum og fyrirtækjunum. Það er mikill ábyrgðarhluti að fara með alla þessa fjármuni og beita ríkisfjármálunum af þeirri ábyrgð þannig að við völdum ekki meiri skaða en við bætum úr með framgöngu okkar.

Ég ætla ekki að leyna því að mér finnst við hafa stigið mjög langt í því að auka útgjöld á undanförnum árum. Þess er getið í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, að við höfum aukið útgjöld ríkissjóðs á tveimur árum um 125 milljarða kr. eða um 18%. Það þarf mikla verðmætasköpun til að standa undir svona gífurlegum útgjaldaauka.

Þó svo að við skilum fjárlagafrumvarpinu í þessari umræðu á ágætan stað miðað við framlagða fjármálastefnu, þá get ég ekki annað sagt en að við verðum samt aðeins að staldra við og íhuga hvert við erum að stefna. Ég stóð hér síðast í ræðustól Alþingis 14. september og ræddi í 1. umr. um fjárlagafrumvarp. Sú ríkisstjórn sem það lagði fram missti meiri hluta sinn nóttina eftir. Aftur á móti má segja að við gerð og undirbúning þessa fjárlagafrumvarps, sem mér finnst reyndar mikið afrek að skyldi hafa verið sett saman á jafn stuttum tíma af nýrri ríkisstjórn, að sannarlega er það stefnubreyting frá því fjárlagafrumvarpi sem við ræddum þá. Það er ekki svo að ekki hafi orðið veruleg stefnubreyting við ríkisstjórnarskiptin. Hún er mjög áþreifanleg í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér og mögulega líka í þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram. Þar erum við að horfa til heilbrigðismála, menntamála, til umhverfismála og til eflingar Alþingis. Þetta eru þær vörður sem eru í áherslum hins nýja meiri hluta. Það er raunverulega þannig, eða því miður vil ég kannski segja, að í kosningunum voru þeir flokkar sem töluðu fyrir mestum afgangi í ríkisfjármálum ekki að fiska mikið í kosningabaráttunni. Það er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir. Því er ekki hægt að segja að það sé óeðlilegt að þessi stefnubreyting komi fram. Við erum að hluta til að fjármagna þau miklu útgjöld sem við erum að auka hér með því að ganga á þann afgang sem ríkissjóður hefur haft eða hafði mögulega í því fjárlagafrumvarpi sem kom fram fyrr í haust.

En mér finnst pólitíkin í umræðunni hérna eiga kannski fyrst og fremst að snúast um hvernig við ætlum að varðveita þessa stöðu og síðan hvernig við ætlum að beita þessum miklu fjármunum. Þetta eru gífurlega miklir fjármunir sem við bætum hér í, 51 milljarður í aukin útgjöld, þar af 17,3 milljarðar sem eru laun og verðbætur. Það eru 34 milljarðar settir til að bæta í verkefni og fjárfestingar.

Þetta er þá fyrst og fremst sótt í aukna hagsæld þjóðarinnar, í auknar skatttekjur. Þetta er sótt í afganginn og líka sótt í það að við erum að lækka vaxtakostnað hins opinbera og það hefur kannski orðið helsti viðsnúningur í ríkisfjármálum á undanförnum mánuðum, hversu stórum áföngum við höfum náð í þeim efnum og breyting núna á milli 1. og 2. umr. um þetta fjárlagafrumvarp endurspeglar það meðal annars, því að enn er verið að lækka vaxtakostnað á næsta ári með aðgerðum við að lækka skuldir ríkisins.

Aðeins að því meirihlutaáliti sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram. Ég vil í fyrsta lagi nefna að þar sem við ræðum um það útgjaldatilefni sem hér er verið að auka fjárveitingar til, sem kannski líka endurspeglar að okkur hefur ekki tekist sem skyldi að hemja útvöxtinn á árinu sem er að líða, og ég ætla bara að lýsa ábyrgð á mig sem þá var formaður fjárlaganefndar á því kjörtímabili, að við höfum ekki staðið okkur í stykkinu í þeim efnum. Til dæmis veruleg aukin útgjöld til lyfjamála, þau hafa hækka þau um 35%, sem segir okkur það einfaldlega að ekki var það aðhald sem við ætluðumst til við að framkvæma þær áherslur í þeim málaflokki sem þar er undir.

Í kjölfarið á setningu þessara fjárlaga, virðulegi forseti, verðum við að ræða verklag fjárlaganefndar og fjármálaráðherra og þeirra sem koma að eftirfylgni fjárlagafrumvarps og fjárlaga á hverju ári, og reyna að rýna og gera betur í þeim efnum. Við ræðum það sérstaklega í meirihlutaáliti okkar og líka að við ætlumst náttúrlega til þess að nýir ráðherrar og allir ráðherrar setjist núna í ráðuneytin og horfi yfir verkefnaflokka sinna ráðuneyta og hugsi með sér hvar þeir geti gert betur og hvort þurfi endilega að gera allt sem líka var gert í fyrra. Ég held að það væri ákaflega holl og mikilvæg vinna fyrir ráðherrana að eyða svolitlum tíma í að rýna þau verkefni sem þeir fara með og velta fyrir sér hvort þurfi að gera þau nákvæmlega eins og gert var í fyrra og athuga hvort þeir geti ekki gert það hagkvæmar og betur.

Við gerum örfáar breytingar á milli umræðna. Kannski má segja óvenju fáar, enda var sú hagspá komin fram sem helst hefur breytt umræðu um fjárlög á milli umræðna á undanförnum árum, hún var komin fram þegar frumvarpið var lagt fram. Við erum að sækja aukna fjármuni til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Við útfærum það ekki nákvæmlega en eigum um það gott samstarf við hæstv. heilbrigðisráðherra í þeim efnum þar sem hún mun líka af sínum fjármunum og safnliðum leggja til fjármuni til að efla þær stofnanir. Ég held að ákaflega mikilvægt sé að við horfum til þess á árinu eða þegar við göngum frá þessari áherslu fjárlaganefndar og þar af leiðandi þingsins, hvernig við varðveitum þá fjármuni og horfum ekki síst til þeirra stofnana sem hafa náð mjög góðum árangri í rekstri á undanförnum árum. Þetta vildi ég sérstaklega taka fram, virðulegi forseti, við þessa umræðu. Það er algerlega óþolandi að heilbrigðisstofnanir sem hafa sannarlega náð tökum á sínum rekstri beri fyrst og fremst minnst úr býtum, og geri ég ekki lítið úr vandamálum þeirra stofnana sem eiga erfitt með að halda sig innan fjárheimilda.

Ég ætla að leyfa mér að gera ákveðna athugasemd við þann fréttaflutning sem hefur komið fram um þessa tillögu meiri hluta fjárlaganefndar. Hún er að sjálfsögðu borin fram af meiri hlutanum en ekki ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þetta flokka ég nú bara undir byrjunarerfiðleika og ekki fleiri orð um það.

Við fjöllum líka um rekstrarvandamál hjúkrunarheimila og við munum í meiri hluta fjárlaganefndar og fjárlaganefnd fylgja því eftir í samstarfi við hæstv. heilbrigðisráðherra að vinna meira í þeim málaflokki, meira að lausnum í þeim efnum. Við vitum að það er ákaflega mikilvægt að ná betur utan um þann málaflokk. Ég veit að heilbrigðisstofnanir gerðu sér vonir um ákveðnar úrbætur í þeim efnum á milli umræðna en svo er ekki, alla vega ekki af hendi meiri hluta fjárlaganefndar. En þar eru mörg verkefni sem við getum sannarlega tekið betur utan um.

Tímans vegna ætla ég svo sem ekki að fjölyrða um margar af öðrum breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar á milli umræðna en aðeins segja að ýmislegt kallar, og vísa ég þar til nefndarálitsins að öðru leyti ef menn vilja kynna sér það, en taka aðeins fram að úr nefndaráliti féll áhersla fjárlaganefndar á að ýmis verkefni sem hún hefur haft á sinni hendi í mörg ár eins og verkefni Art, Aflið og Ljósið, að við vísum því að sjálfsögðu til félagsmálaráðherra að huga nú loksins að því að koma fjárveitingum til þeirra mikilvægu verkefna í varanlegra horf.

Ég get því miður ekki í stuttri ræðu rætt jafn ítarlega og ég hefði viljað um þetta stóra skref, stóru áherslubreytingar sem eru hér að verða og sannarlega var kallað eftir í þessari kosningabaráttu og var raunveruleg niðurstaða kosninganna og grunnurinn að því stjórnarsamstarfi sem hér er nýhafið. Þetta merkilega stjórnarsamstarf frá vinstri til hægri. Það er eðlilegt að þessar áherslubreytingar endurspeglist í fjárlagafrumvarpinu.