148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður notaði orðasambandið „að valda ekki meiri skaða“. Þá spyr ég: Veldur það ekki skaða að fjármagna ekki samgönguáætlun tvö í röð? Búið er að skapa ákveðnar væntingar um hvað eigi að gerast í samgöngum. Er það forgangsröðun til heilbrigðismála að tala um þá upplýstu ákvörðun sem við tökum núna, að skila Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi í mínus rekstrarlega séð? Miðað við allar þær forsendur og allar þær upplýsingar sem við höfum núna, eins þvældar og þær eru á þessum stutta tíma, þá liggur fyrir að við munum skila Landspítalanum í mínus rekstrarlega séð. Veldur það ekki meiri skaða?

Hv. þingmaður sagði að áhersla ríkisstjórnarinnar væri að bæta við 50 milljörðum. Ég hef heyrt eitthvað um 66 milljarða áður í umræðunni. En það stendur í fjárlagafrumvarpinu að áherslumál ríkisstjórnarinnar sé að bæta 12 milljörðum við, núna 12, 6 milljörðum eftir breytingartillöguna, af því að ég sé að 600 milljónir á breytingartillögu meiri hlutans er hluti ríkisstjórnarinnar samkvæmt bréfi sem fjárlaganefnd fékk frá fjármála- og efnahagsráðherra. Best að hafa það á hreinu.

Svo myndi ég vilja bæta við seinna í umræðunni, ég held að ég þurfi að komast að þegar forsætisráðherra er hérna. Kem því kannski að seinna.

Það er skaði að fjármagna ekki samgönguáætlun. Ég held að við þurfum að viðurkenna að samgönguáætlun var í rauninni bara ákveðin í kosningabaráttu rétt fyrir kosningar 2016. Það sem var samþykkt er greinilega gersamlega óraunhæft ef ekki er hægt að fjármagna áætlunina tvö ár í röð. Og það er skaði að skila Landspítalanum í mínus. Það er bara staðreynd.