148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta andsvar frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Já, sumt verður hann að eiga við forsætisráðherra. Þegar ég tala um skaða er ég að fjalla um þann skaða sem óábyrg ríkisfjármál geta valdið með óhóflegum útgjaldaaukningum, með hallarekstri ríkissjóðs og að blása upp bólu í örum hagvexti. Það er sá skaði sem ég vísa til. Það er vandaverk að stýra í miklum hagvexti eins og er núna og eru reyndar ágætar horfur á að verði um skamman tíma til viðbótar þó að blikur séu á lofti síðan í framhaldi af næsta ári um að það fari að draga verulega úr hagvextinum. Samsetning hagvaxtarins er líka atriði sem við eigum alltaf að vera upptekin af. Þar eru líka ákveðin hættumerki.

Skaði er í mínum huga er fyrst og fremst á þennan veg, hvernig ríkisfjármálin hafa áhrif á efnahagslífið hér í landinu og hvaða óhappaverk við getum gert með ábyrgðarleysi í þessum sal sem bitnar þá fyrst og fremst á heimilum landsins.

Um þau orð sem hv. þingmaður hafði um Landspítalann og taprekstur hans kom nú ágætlega fram á fundi hv. fjárlaganefndar með Landspítalanum að við getum í sjálfu sér ekki í dag sagt nákvæmlega um hver rekstrarniðurstaða ársins verður. Það kom ágætlega fram þar að einhver útjöfnun úr safnliðum á hendi ráðuneytisins eigi eftir að fara fram. Það er ótímabært að ræða hér um skaða sem við völdum Landspítalanum vegna þess að hann sé ekki nægilega fjármagnaður að þessu leyti. Áhersla meiri hlutans, eins og ég tók fram í ræðu minni, er að horfa líka til landsbyggðarinnar og fjármögnun heilbrigðisstofnana um landið því að heilbrigðiskerfið er náttúrlega miklu meira en Landspítalinn.