148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Þakka hv. þingmanni. Vissulega er Landspítalinn – háskólasjúkrahús ekki allt heilbrigðiskerfið, hann hefur tvímælalaust áhrif um allt heilbrigðiskerfið og er stoðþjónusta fyrir allt landið og allt landið er nærþjónusta fyrir alla þar. Það spilar allt saman.

Ég skil orð hv. þingmanns sem svo að það eigi eftir að ráðstafa ýmsum safnliðum o.s.frv. og að ætlunin sé að skila Landspítalanum ekki í mínus, ekki í hallarekstri, þetta ár.

Hvað varðar skaðann sem talað er um hér þá er ég fullkomlega sammála hv. þingmanni. En skaðinn snýst um forgangsröðunina. Það er þá valið og forgangsraðað af þeim fjármunum sem eru til umráða til að valda ekki skaða hagstjórnarlega séð með því að fullfjármagna ekki samgönguáætlun. Það er ályktun Alþingis, leiðbeiningar til ríkisstjórnarinnar um hvað hún eigi að gera. Það er einfaldlega val ríkisstjórnarinnar að fullfjármagna þá ekki samgönguáætlun, að skilja þá mögulega Landspítalann – háskólasjúkrahús í mínusrekstri miðað við þær upplýsingar sem við fengum í nefndinni.

Ef það er ekki skaði þá veit ég ekki hvað það er.

Ég er ekki endilega að biðja um meiri útgjöld, ég er að biðja um forgangsröðun, þó þannig að sá liður sem flestir landsmenn forgangsraða fyrst samkvæmt könnunum sé heilbrigðiskerfið, að það sé að minnsta kosti ekki rekið í halla.