148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:40]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má náttúrlega skilgreina skaðann með margvíslegum hætti. Það er fyrst og fremst á ábyrgð forstöðumanna hverrar stofnunar fyrir sig að halda sig innan þeirra fjárheimilda sem þeim eru ætlaðar. Í öðru lagi get ég ekki vísað í annað en það sem fram kom hjá fulltrúa velferðarráðuneytisins, og hv. þingmaður með ágæta reynslu af að sitja í fjárlaganefnd hlustaði á eins og ég, þar sem hann lýsti því ásamt fulltrúum Landspítalans háskólasjúkrahúss að útjöfnun á ákveðnum pottum og ákveðnum verkefnum, sem m.a. voru samþykkt hér fyrir ári síðan, ákvarðanir sem voru teknar fyrir ári síðan, hafi ekki verið gerð. Það er fullkomlega ómögulegt að segja á þessu stigi hver verður endanleg rekstrarniðurstaða þessa mikilvæga sjúkrahúss, sem ég deili ekki um og tek undir með hv. þingmanni að það sé.

Síðan má ræða um þegar 600 milljónir vantar upp á rekstur, samkvæmt þeirra mati, í 50–60 milljarða rekstri, sem ég veit að þau hafa lagt fram, er það kannski ekki stórt verkefni, en það er ástæða til að fara í gegnum það því að 600 milljónir eru í öðru samhengi mjög miklir peningar.

Skaði varðandi samgönguáætlunina er náttúrlega fyrst og fremst sá að það hefði orðið mikill skaði ef við hefðum bara á einum degi blásið í þá samgönguáætlun út frá efnahagsstærðum.

Ég ætla ekki að kinoka mér við að viðurkenna að ég er einn af þeim sem samþykktu þá samgönguáætlun í aðdraganda fyrir nokkrum kosningum síðan. Auðvitað voru það ekki góð vinnubrögð og ekki í anda þeirra vinnubragða sem við viljum núna ástunda undir því sem við köllum enn þá ný lög um opinber fjármál en eru sannarlega ekki lengur ný. Við höfum hins vegar aldrei náð að taka heilan hring í framkvæmd þeirra laga.