148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að velta fyrir mér einu í sambandi við það hvernig hv. þingmaður og eiginlega Sjálfstæðisflokkurinn almennt lítur á hlutverk sitt þegar kemur að auknum útgjöldum ríkissjóðs og sköttum. Mér finnst ég alltaf heyra þá orðræðu að það eigi að lækka skatta og takmarka ríkisútgjöld. Svo heyrist mér á ræðu hv. þingmanns að hér hefðu ríkisútgjöld aukist svo ofboðslega mikið á undanförnum árum þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórn — nú í nokkrar vikur með Vinstri grænum, þar áður með öðrum flokkum.

Nú erum við komin að toppi hagsveiflunnar eins og virðist vera óumdeilt. Þá þurfum við að sýna þetta aðhald. Ef ég man rétt var Sjálfstæðisflokkurinn á kjörtímabilinu 2013–2016 að gorta sig mikið af því að hafa lækkað skatta. Sagan sem ég heyri — ef ég set mig í spor kjósenda úti í bæ, maður heyrir ýmislegt hér inni — ímyndin sem mér sýnist Sjálfstæðisflokkurinn reyna að birta af sjálfum sér, er sú að hann hafi lækkað skatta og aukið útgjöld á þessum þenslutímum eftir hrun. Þá velti ég því fyrir mér hvenær hv. þingmaður eða Sjálfstæðisflokkurinn almennt — ég veit ekki fyrir hversu stóran hluta þess annars ágæta flokks hv. þingmaður getur talað — myndi hækka skatta í því skyni að stjórna efnahagnum af keynesískri hugmyndafræði, sem virðist vera almennt viðurkennd þar, til að hafa hemil á uppsveiflu. Orðræðan sem ég heyri er á þann veg að flokkurinn hafi verið að lækka skatta og auka útgjöld í uppsveiflu. Mér finnst þetta ekki alveg standast þá kenningu sem ég aðhyllist í meginatriðum, þ.e. að á toppi hagsveiflunnar þurfum við að halda að okkur höndum þótt við séum að fara niður á við. Ég skil þetta ekki alveg. Mig langar til að hv. þingmaður útskýri þetta fyrir mér.