148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nei, herra hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, þú ert ekkert úti á túni. Það var hins vegar hv. þm. Haraldur Benediktsson sem talaði um aukin ríkisútgjöld og varaði við óábyrgri ríkisfjármálastefnu, sem er önnur ástæða þess að ég kalla þetta fjárlagafrumvarp óábyrgt og óásættanlegt. Í því felst eftirgjöf tekna upp á rúmlega 20 milljarða á sama tíma og útgjöld eru aukin um nánast sömu upphæð með því að ganga á tekjuafgang á toppi hagsveiflunnar. Afleiðingarnar eru fyrirsjáanlegar, m.a. þær sem Seðlabankinn nefnir í umsögn sinni um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Minna aðhald í ríkisfjármálum mun því óhjákvæmilega hafa í för með sér að vextir og gengi krónunnar verða hærri en ella hefði verið.“

Í stað þess að búa í haginn fyrir mögru árin er olíu hellt á eldinn og óstöðugleikinn sem leikið hefur okkur svo grátt mun sjálfsagt komast á stjá aftur.

Í öðru lagi er ekki minnsta tilraun gerð til þess að mæta vaxandi ójöfnuði í samfélaginu eða bæta kjör þeirra þjóðfélagshópa sem verst settir eru í samfélaginu í þessum fjárlögum. Um þetta segir m.a. í ályktun miðstjórnar ASÍ, með leyfi herra forseta:

„Bilið milli ríkra og fátækra eykst. Í rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár kemur skýrt fram að skattbyrði launafólks hefur aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar eru lægri. Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé brugðist við þessari þróun í fjárlagafrumvarpinu heldur þvert á móti haldið áfram á sömu braut með því að lækka útgjöld til barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta. Tekjuójöfnuður mun halda áfram að aukast þar sem dregið er enn frekar úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins.“

Enn fremur segir í ályktuninni að þetta fjárlagafrumvarp dugi ekki til þess að leggja grunninn að samráði og samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Það er auðvelt að taka undir þessi orð, herra forseti. Því miður er ekki tekið á misskiptingunni í samfélaginu gegnum skattkerfið þó að sú staðreynd sé augljós að 5% af ríkustu landsmönnum eigi jafn mikið af hreinum eignum og hin 95% og það kalli að sjálfsögðu á aðgerðir.

Nú ætla ég að fara yfir alvarlegustu hluta frumvarpsins, en einnig breytingartillögur Samfylkingarinnar sem snúa að því að auka jöfnuð og styðja við þá sem lakast eru settir og koma í veg fyrir þjónustuskerðingu í heilbrigðiskerfinu.

Það eru engar viðbótarfjárveitingar settar í barnabætur, vaxtabætur, húsnæðisstyrk, fæðingarorlof eða húsnæðismál. Samfylkingin leggur því til að 5 milljarðar verði settir í barna- og vaxtabótakerfið og 2 milljarðar verði settir í stofnframlög til almennra íbúða. Bæði landssamtök eldri borgara og landssamtök öryrkja lýsa miklum vonbrigðum með frumvarpið. Samfylkingin leggur því til að í málefni aldraðra verði settir 1,5 milljarðar aukalega. Við viljum nefnilega styðja betur við það fólk sem býr við lökustu kjörin, minnug þess að 40% allra aldraðra ná ekki framfærsluviðmiðum og ellilífeyrir þeirra sem eru í sambúð og búa einir nær ekki einu sinni 250.000 kr. á mánuði, sem er langt undir þeim 300.000 kr. sem allir eru sammála um á tyllidögum að aldraðir eigi skilið. Samfylkingin vill því að 3 milljaðar fari til öryrkja. Þá peninga þarf að nýta til að bæta lægstu bæturnar og standa við þau loforð sem allir stjórnmálaflokkar hafa gefið í mörg ár um afnám krónu á móti skerðingar.

Sveltistefna heilbrigðiskerfisins heldur áfram þó að eitthvað sé aðeins bætt í og nú í boði Vinstri grænna. Sú staðreynd að allir forsvarsmenn heilbrigðisstofnana sem komu á fund heilbrigðisnefndar lýstu yfir mikilli óánægju talar sínu máli. Enn vantar Landspítalann tæplega 3 milljarða einungis til að halda í horfinu og að óbreyttu mun þjónusta spítalans versna. Heilbrigðisstofnanir úti á landi fá minna en helming af því sem þær óskuðu eftir svo hægt væri að tryggja óbreytta starfsemi. Þá fá hjúkrunarheimili beinlínis lækkun á milli ára.

Muna fleiri en ég eftir því að Framsóknarflokkurinn auglýsti um mikilvægi þess að byggja fleiri hjúkrunarheimili og styðja betur við heilbrigðisþjónustu úti um land allt? Samfylkingin leggur þess vegna til að 3 milljarðar renni til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, 500 milljónir til heilbrigðisstofnana og 400 milljónir til heilsugæslunnar.

Framhaldsskólastigið býr enn við talsverðra fjárhagserfiðleika. Þess vegna vill Samfylkingin verja til þess tvöfalt meira en því sem ríkisstjórnin leggur til, eða 400 millj. kr. til viðbótar.

Þá vill Samfylkingin leggja til 50% hækkun á nýju fjármagni sem ríkisstjórnin og fjárlaganefnd leggja til samgöngumála, eða 1 milljarð kr. Aftur rifja ég upp loforð Framsóknar og Vinstri grænna um að standa þurfi að fullfjármagnaðri samgönguáætlun. Frumvarpið er reyndar órafjarri því markmiði. Svo minnir mig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað 100 milljörðum í innviðauppbyggingu sem taka átti úr bönkum og arði og guð má vita hverju.

Nei, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skuldar landsbyggðinni einfaldlega skýringar á þessu fjárlagafrumvarpi.

Að lokum vill Samfylkingin verja 1 milljarði kr. í stórsókn gegn kynbundnu ofbeldi og fjölgun lögreglumanna, en einungis einn fimmta þeirrar upphæðar er að finna í fjárlagafrumvarpinu. Við getum ekki búið lengur við þá málsmeðferð í kynferðisbrotamálum að það taki tvö til þrjú ár að sækja mál sitt vegna þess hversu illa búið er að lögreglunni. Stjórnvöld verða einfaldlega að bregðast við af meiri krafti.

Að endingu ætlar Samfylkingin í tilefni jólanna að bjóða Alþingi upp á að greiða atkvæði um afnám bókaskattsins og verður sú tillaga borin upp hér í kvöld. Ég hvet þingmenn til að kynna sér vel breytingartillögur Samfylkingarinnar og styðja þau góðu mál sem þar koma fram.

Herra forseti. Það er reyndar ömurlegt að ekki sjáist skýrara merki um að vinstri flokkur sitji í forsæti þessarar ríkisstjórnar. Fingraför Vinstri grænna eru bara afar takmörkuð og frumvarpið sýnir nánast fullkomlega eftirgjöf við stjórnarmyndunina. Þau náðu 2% útgjaldaaukningu frá síðustu fjárlögum sem þau kölluðu sjálf sveltistefnu. Hjálpin frá Framsókn virðist ekki hafa verið ýkja mikil; Framsókn, sem sýndi reyndar ítrekað vinstri vangann í kosningabaráttunni og maður hélt eitt augnablik að formaður flokksins ætlaði að færa hann aftur til tíma Steingríms Hermannssonar, en hann er sami gamli hægri flokkurinn sem hann hefur verið síðustu ár.

Það er nefnilega ekki nóg að skrifa stefnu og lofa fyrir kosningar. Við framlagningu á slíku frumvarpi sem hér er rætt birtast raunverulegar áherslur flokkanna. Þar kemur gleggst fram hvers konar samfélag menn vilja byggja fyrir þjóð sína, hver skipting eigna á að verða, hverjar verða tekjur og með hvaða hætti skattar eru lagðir á hvern og einn. Og af efndum og forgangsröðun verða flokkarnir dæmir að endingu. Hverjar eru þær? Ríkisstjórnin fann strax 665 milljónir til þess að leysa vanda sauðfjárbænda, en sex þúsund börn í landinu fá ekkert. Það þýðir ekkert að tala um að það lagist í vor með nýrri fjármálaáætlun. Í fyrsta lagi þurfa þá veikir hópar í samfélaginu að bíða í eitt ár til viðbótar eftir bót sinna meina og í öðru lagi er í stjórnarsáttmálanum lofað frekari skattalækkun. Það er því ekkert sem bendir til þess að lagður verði grunnur að jöfnuði eða sátt í samfélaginu. Vandanum verður einfaldlega vísað á næstu ríkisstjórn.

Það gengur heldur ekki að afsaka sig með nauðsynlegum málamiðlunum ólíkra flokka. Vinstri græn og Framsókn gengu sjálfviljug til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og verða bara að bera ábyrgð á því. Reyndar gaf hæstv. forsætisráðherra það í skyn í sinni fyrstu stefnuræðu að hún teldi að ætti að dæma Vinstri græn út frá málamiðlun. Með leyfi herra forseta:

„Sagt hefur verið að það sé auðvelt að dæma stjórnmálamenn út frá hugsjónum þeirra en mikilvægari dómur sé sá sem falli um þær málamiðlanir sem þeir gera.“

Gott og vel. Í hverju fólst sú málamiðlun? Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína gömlu skattstefnu, Vinstri græn fengu örlítið í innviði, ekkert í baráttu gegn ójöfnuði, en þrjá ráðherrastóla og málverk niður á forsætisskrifstofu. Meira að segja í loftslagsmálum, sem áttu að vera flaggskip stjórnarsáttmálans, er allt of lítið handfast. Síðasta ríkisstjórn lagði áherslu á græna skatta, en nú er fallið frá tvöföldun þeirra. Gengið er helmingi skemur en síðasta ríkisstjórn ætlaði sér. Við það hverfa 2 milljarðar kr. sem bætt er upp með 20 milljónum til loftslagsmála. Það er ekki trúverðugt, herra forseti. Það eru vonbrigði. Ný ríkisstjórn fer einfaldlega illa af stað.