148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hljómar allt mjög vel sem hv. þingmaður talar um, alla vega að mínu viti. Sér í lagi tók ég eftir afnámi bókaskatts, eitthvað sem ég aðhyllist mjög og tel algjörlega nauðsynlegt til að íslenska tungan lifi út þessa öld, ef við áttum okkur því að það mun kosta peninga, hvort sem það er í því að skattleggja ekki það sem annars er skattlagt eða einfaldlega borga fyrir það sem við þurfum að borga.

Ég velti einu fyrir mér vegna þess að ég hef ekki skoðað enn þá tillögur Samfylkingarinnar, sem ég mun auðvitað gera eftir fremsta megni einhvern tíma í kvöld, hvort allar þær hugmyndir sem hv. þingmaður kom fram með hafi verið kostnaðargreindar. Hvort hægt væri að setja þær upp í töflureikni sem dæmi sem sýndi fram á hvernig það væri gerlegt og hver áhrifin yrðu á heildarafkomu ríkissjóðs o.s.frv.

Ég spyr vegna þess að oft er talað um það í kosningabaráttu að setja eigi 100 milljarða hér eða þar, eins og eftirminnilega kom frá Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma þegar hann lofaði, eða lofaði ekki svo sem en var í auglýsingum; 100 milljarðar í innviði. Þetta eru slagorðin sem virðast stundum virka. Við Píratar fórum þá leið að setja beinlínis upp töflureikningsskjal, við báðum um komment og athugasemdir, við báðum um tillögur o.s.frv. Viðreisn fór í svipaða vegferð þótt ég hafi aldrei séð töflureikningsskjal frá þeim að vísu, en þau reyndu að gera eitthvað svipað. — Ég sé á viðbrögðum hv. þingmanns og öðrum þingmanni sem kinka kolli að greinilega er svarið já við spurningunni.

Þá velti ég fyrir: Er það er ekki eitthvað sem flokkar ættu að geta unnið saman að þegar kemur að því að vinna að tillögum, að reyna að stilla tillögunum þannig að það sé skýrt fyrir fram þegar verið er að tala í öllum þessum svokallaða loforðaflaumi hver áhrifin eru nákvæmlega á ríkissjóð og skattborgarana í landinu?