148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því hjá hv. þingmanni, og ég skil þá tillögu hans þannig að hún breyti ekki afkomu ríkissjóðs út frá þeim tillögum sem Samfylkingin leggur til, ef ég skil hv. þingmann rétt, sem ég er reyndar ekki alltaf viss um hér í þessari ágætu pontu að sé tilfellið.

Nú skal ég játa það að tillögur okkar Pírata fyrir kosningar — ég ítreka tillögur, ekki loforð — gerðu ráð fyrir að afgangur ríkissjóðs myndi minnka, sumir gagnrýndu það, kannski réttilega. Við gerðum ráð fyrir slaka í hagkerfinu á næstu misserum í samræmi við væntingar sumra stofnana sem pæla mikið í þeim efnum. Þess vegna vildum við gefa svolítið í. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það ánægjulega skemmtilegt að heyra það nefnt sérstaklega, þ.e. greiðslujöfnuður ríkissjóðs, í því samhengi að fara út í allar þær aðgerðir sem hv. þingmaður talar um, því að þær hljóta að kalla á útgjöld og hljóta þá eins og hv. þingmaður bendir á að kalla á skattahækkanir.

Ef hv. þingmaður væri í fyrsta lagi til í að svara því hvort það sé rétt hjá mér skilið að greiðslujöfnuður ríkissjóðs sé þá hinn sami þrátt fyrir þessar breytingartillögur Samfylkingarinnar. Í öðru lagi hvaða skattar það eru, ef það er rétt hjá mér skilið, sem Samfylkingin leggur til að verði hækkaðir, eða með hvaða móti tekna verði aflað til að greiða fyrir þessi auknu útgjöld.