148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:08]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef svo sem frekar einfaldar spurningar fyrir hv. þingmann og er honum mjög ósammála. Ég fagna því þó að hann hafi áttað sig á því hér undir lokin að við erum ekki alltaf á toppnum og sú útgjaldaaukning sem fram fer í þessari viku fyrir næsta ár verður ekki alltaf svo mikil.

Spurning mín til hv. þingmanns er einföld. Hann vísar hér sífellt í eftirgjöf tekna og að gefa eftir tekjur, sem hann sakar þessa ríkisstjórn um að gera. Er það í hans orðabók að lækka skatta á vinnandi fólki, að seilast ekki dýpra í vasa fólksins í landinu? Hann talar um að við séum hér að gefa eftir tekjur, en það þýðir bara að vilja hækka skatta á vinnandi fólk í landinu. Það finnst mér vera orðsending til hins almenna borgara, að við séum bara að hugsa um ríkið og að útgjöld geri allt betra. Vissulega gera þau margt betra. En það væri gaman að heyra hv. þingmann líka tala um að stundum megi nýta peninginn betur.