148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það má alveg örugglega nýta peningana betur. Ég kann vel við þegar notuð eru myndræn orð og myndrænar setningar eins og að seilast djúpt í vasa hjá almennu launafólki. Það er nefnilega það sem við ætluðum ekki að gera. Við höfum talað um að við ætluðum að verja lág- og millitekjufólk. En síðan hvenær er það að seilast í vasann hjá venjulegu launafólki á Íslandi að láta ferðamenn borga fyrir að koma hingað? Þeir keyra á vegunum. Þeir traðka niður náttúruna, það er bara allt í lagi að þeir borgi aðeins fyrir það. Þeir skila okkur auðvitað líka tekjum. Ég er ekkert viss um að venjulegt launafólk á landinu reki stóru bílaleigurnar hér sem eru búnar að vera í aðlögunarferli núna í 10 ár.

Nei, herra forseti, það er ekki meiningin að seilast ofan í vasann hjá venjulegu fólki. Það er einmitt tilgangurinn að seilast í ofgnótt þeirra sem eiga nóg af peningum og geta alveg látið aðeins meira af hendi rakna, og láta aura, krónur og jafnvel seðla falla ofan í djúpa vasa þeirra sem búnir eru að líða skort hérna í ár og áratugi. Ójöfnuður er enn þá að aukast. Það er það sem við ætluðum að gera. Það er það sem ég taldi að við værum sammála Vinstri grænum um.

Ég tók það fram í upphafi að ég bæri alveg virðingu fyrir sjónarmiðum sem væru andsnúin mínum ef það væri þá eitthvert system í galskapnum, ef það væri þá þannig að menn segðu bara: Það eru ekki tekjur, við erum sem sagt á toppi hagsveiflu og aukum ekki útgjöld á sama tíma. Það er ekki verið að gera það. Verið er að auka þau og taka það fé úr forðanum. Það er það sem við kunnum ekki við. Við viljum afla teknanna nákvæmlega eins og nágrannar okkar í Vinstri grænum vildu gera með okkur fyrir kosningar en hættu skyndilega að vilja gera í nóvember og desember á þessu ári.