148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:12]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við erum nú með frekar háa skatta hér á landi þegar við berum okkur saman við margar aðrar þjóðir. Nú þegar erum við að fara talsvert ofan í þessa umtöluðu vasa hjá fólki. Hv. þingmaður segir að hann vilji bara fara dýpra og dýpra. Það er ákveðið sjónarmið. Hann vill skattleggja meira þá sem fara um landið, sem mun þá leggjast einna þyngst á þá sem búa á landsbyggðinni. Hv. þingmaður kemur með alls konar hugmyndir um skattahækkanir.

En maður veltir líka fyrir sér eftir að hafa verið í umræðum um þetta fjárlagafrumvarp og það síðasta: Hvenær er komið nóg? Er einhvern tímann eitthvað nóg? Er það einhver milljarður aukalega, 1 eða 2, sem mun verða til þess að hv. þingmaður mun segja: Já, þetta er flott? Nei, það held ég ekki. Það verður alltaf beðið um meiri útgjöld. Þó að við veitum hér miklu fleiri milljarða en fyrir nokkrum vikum síðan er það fjarri því að vera nóg fyrir hv. þingmann. Það er það sem umræðan snýst um, að þetta verður aldrei nóg og menn þurfa að vera á móti þrátt fyrir að við setjum gríðarlega aukafjármuni í alla innviði og byggjum upp með þeim hætti sem við munum ekki sjá gert í framtíðinni af því að, eins og hv. þingmaður sagði, við munum ekki alltaf vera á toppnum. En nú erum við það og ætlum að eyða hér gríðarlegum fjármunum í innviði og getum verið afskaplega stolt af þessu fjárlagafrumvarpi. En það verður aldrei nóg fyrir hv. þingmann.