148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvað ætlar hv. þingmaður að gera þegar hún er komin á botninn í frystikistuna og það eru bara tvær kótilettur eftir en það þarf enn að reka kerfin? Hvað ætlar hún þá að gera? Ætlar hún þá að fara út að veiða? Nei, Sjálfstæðisflokkurinn annars vegar og hins vegar Vinstri græn og Samfylkingin eru ósammála í grundvallaratriðum um tilgang skattkerfisins. Þannig hefur það alla vega verið fram að þessari viku. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn lítur á skattkerfið sem nauðsynlegan hluta til lágmarkstekjuöflunar. Það sjónarmið virði ég, en ég er ekki sammála því.

Jafnaðarmenn og Vinstri græn hafa a.m.k. hingað til litið á skattkerfið bæði til tekjuöflunar og líka til tekjujöfnunar. (ÁslS: Hvenær er nóg?) Ja, ef þú ert að tala um þennan milljarð, þá er allt í lagi að taka aðeins af honum ef einhver á 8 milljarða þar fyrir utan. En við ætlum einmitt að taka af þeim sem eru aflögufærir og biðja þá vinsamlega að leggja meira til samneyslunnar, sem þeir vilja flestir. Ferðamenn sem koma hingað til landsins geta lagt meira af mörkum. Ég ítreka, hv. þingmaður, að það er ekki til þess að fara ofan í neina vasa, það er til þess að setja ofan í vasana hjá þeim sem eru fátækir, þeim sem ekki geta gefið börnunum sínum jólagjöf, þeim sem ekki geta leyft sér að fara út í búð og keypt það sem þeir vilja. Það er það sem við viljum gera. Það eru aldraðir, öryrkjar og það er ungt barnafólk. Við teljum að með því að styrkja vaxtabótakerfið, barnabótakerfið, húsnæðisbótakerfið, með slíkum millifærsluleiðum, séum við að nota öflugustu og skjótvirkustu leiðina sem til er til þess að jafna kjörin og laga aðstæður þeirra sem ekki fara jafn glöð inn í jólin og við.