148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. En ég get ekki verið honum sammála nefnilega núna. Í fyrra var það akkúrat þannig að það rataði ekki inn í textann, þ.e. hluti af því sem við höfðum ætlað að hafa þar skilaði sér ekki. Hér eru hins vegar öll þau verkefni sem við tókum inn færð inn sérstaklega, hvert eitt og einasta. Tíu milljónir eiga að koma til Aflsins, 25 milljónir til Ljóssins, o.s.frv. Mér finnst þetta sérstaklega tekið hérna fram og las upp hvernig milljónir skiptast í vegagerðinni. Og hér er einmitt brotið niður á safnamálin, niður á menningarstofnanirnar og menningarsjóðina. Við vönduðum okkur sérstaklega af því að þetta klikkaði svo í fyrra. Það var okkur mikið mál því að við hv. þm. Haraldur Benediktsson vorum einmitt í þessu í fyrra og þurftum einhvern veginn að vinna eftir á með ráðuneytunum við að koma því til skila. Þetta er einmitt eitt af því sem mér finnst hafa verið gerð mjög góð skil í þessu fjárlagafrumvarpi.