148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var meira og minna þannig að formaður nefndarinnar tók við öllum þeim styrkumsóknum sem bárust og voru með rökstuðning að baki sér. Þær voru skráðar í kerfið. Ég held að það sem barst fyrir þann tíma þegar við vorum að vinna þetta hafi meira og minna allt saman farið inn. Síðan urðum við að hafa það þannig að ekki var hægt að uppfylla það að öllu leyti til allra. Við reyndum þá frekar að setja það inn þannig að flestir fengju.

Ég tek alveg undir að ég hefði viljað sjá meiri peninga í nýsköpun og rannsóknir. Við þurfum að huga mjög vel að því og passa að sinna þeim verkefnum því að það er jú fjórða iðnbyltingin. En ég held að háskólinn sé vel fjármagnaður og geti auðvitað farið í slík störf. Það útilokar ekkert. Það eru auðvitað peningar í nýsköpun þó að þeir séu kannski ekki eins miklir og við vildum hafa þá. Það er svo aftur annað mál. Það má lengi í það bæta.