148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Með leyfi forseta langar mig að vitna í ræðu sem vill svo til að er 100 daga gömul í dag:

„En hvert var ákallið fyrir síðustu kosningar? Það var ákall um að nú þegar áraði betur í þjóðarbúskapnum væri kominn tími á að spýta verulega í og styrkja grunnrekstur hinnar opinberu þjónustu.“

Þessi orð flutti hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fyrir einungis 100 dögum. Nú hefur margítrekað komið fram að meiri hlutinn er einungis að bæta rúmlega 2% innspýtingu í þetta frumvarp miðað við fyrra frumvarp.

Á öðrum stað í þessari ræðu er það frumvarp sem hv. þingmaður gagnrýndi á sínum tíma kallað þunnur þrettándi.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvenær er þunnur þrettándi og hvenær ekki? Ef maður bætir 2,2% ofan á þunnan þrettánda, er hann þá ekki lengur þunnur að mati hv. þingmanns? Af hverju sjáum við ekki þessa verulegu innspýtingu sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) kallaði eftir í þessum sal fyrir einungis 100 dögum?