148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:35]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram og kemur fram í ríkisstjórnarsáttmálanum hafa öryrkjar og Þroskahjálp óskað eftir að fá samtal við ríkisstjórnina um hvernig best sé að bæta þeirra kerfi sem lífsviðurværi þeirra byggist á. Ég tel að það sé skynsamlegra en að vera að grípa til einhverra aðgerða sem við erum ekki viss um að séu heppilegastar. Ég hefði viljað gera meira. Ég dreg enga dul á það. En eins og ég sagði við hv. þingmann þá er ekki samstaða milli allra flokka á þingi um hvaða leiðir eigi að fara í þeim málum, ekki frekar en í tekjuöflunarleiðunum. Hefur hann t.d. spurt alla þá flokka sem voru í viðræðum um annað stjórnarfyrirkomulag hvort þeir séu tilbúnir að leggja á auðlegðarskatt? Ég er ekki viss um að það sé þannig. Eða hvort þeir séu tilbúnir til að hækka auðlindagjöldin á sjávarútveginn? Ég er ekki viss um það. Við erum sammála þar. Það er alveg klárt. (Forseti hringir.) Það að segja að ég styðji þetta ekki í dag — ég er í ríkisstjórnarsamstarfi og í því felst ákveðin ábyrgð eins og hv. þingmaður veit.